„Lygi og nornaveiðar“

Ákæran á hendur Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, er lygi segja verjendur hans en þeir luku málflutningi í öldungadeildinni í gærkvöldi. 

Annar verjenda Trumps, Michael van der Veen, segir að málið gegn Trump sé nornaveiðar rekið áfram af pólitískri hefnigirni. 

Frétt BBC

Trump  er sakaður um að hafa hvatt stuðningsmenn sína til dáða er þeir réðust inn í þinghúsið 6. janúar. Fimm létust í óeirðunum. Hann neitar sök og eru flestir þingmenn repúblikana á sama máli þar sem þeir ætla ekki að greiða atkvæði með sekt hans. 

Verjendur Trumps nýttu aðeins tæplega fjóra tíma af þeim 16 sem þeir höfðu fyrir málflutninginn. Síðan fengu öldungadeildarþingmenn fjóra tíma til að spyrja. 

Vonir standa til að málinu ljúki um helgina og greidd verði atkvæði um sekt eða sakleysi Trumps. Öldungadeildin kemur saman klukkan 10 að staðartíma, klukkan 15 að íslenskum tíma í dag, þar sem rætt verður um hvort heimila eigi að kalla til vitni. Síðan flytja báðir aðilar lokaorð sín. Jafnvel er von á því að greidd verði atkvæði í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert