Bóluefni Pfizer veitir 94% vernd í Ísrael

Gerð var afar umfangsmikil rannsókn á virkni bóluefnisins frá Pfizer …
Gerð var afar umfangsmikil rannsókn á virkni bóluefnisins frá Pfizer í Ísrael. AFP

Bóluefni Pfizer/BioNTech veitir 94% vernd gegn kórónuveirunni, ef marka má nýja rannsókn sem framkvæmd var í Ísrael.

Um 1,2 milljónir manna tóku þátt í rannsókninni, og var helmingur þeirra bólusettur að fullu með Pfizer-efninu, en hinn helmingurinn hafði ekkert bóluefni fengið.

Sýnt var fram á 94% skerðingu sýkingareinkenna og 92% skerðingu á alvarlegum sjúkdómum hjá þeim sem bólusettir voru, miðað við hina 600 þúsund þátttakendurna sem ekki voru bólusettir.

„Skilvirkni bóluefnisins hélst í öllum aldurshópum, þ.m.t. þeim sem eru eldri en sjötugir,“ sagði í tilkynningu frá heilbrigðisstofnuninni Clalit, sem framkvæmdi rannsóknina.

Ísraelar eru langfremstir í bólusetningum í heiminum, en nú þegar hafa 3,8 milljónir manna fengið fyrri bóluefnissprautu af tveimur, og 2,4 milljónir manna fengið þær báðar og eru þar með bólusettar að fullu.

Rétt rúmlega níu milljónir manna búa í landinu, og sjá heilbrigðisyfirvöld þar fram á að hafa bólusett alla Ísraela 16 ára og eldri í lok marsmánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert