Reyndust vera með bráðsmitandi afbrigði

Tvær milljónir íbúa nýsjálensku borgarinnar Auckland þurfa nú að sætta sig við útgöngubann að mestu í þrjá sólarhringa eftir að þrjú úr sömu fjölskyldu, hjón og dóttir þeirra, greindust með Covid-19 í gær. Rannsókn hefur leitt í ljós að tvö þeirra hið minnsta voru með bráðsmitandi afbrigði veirunnar sem fyrst greindist í Bretlandi. Þetta er í fyrsta skipti sem þetta afbrigði veirunnar greinist í Nýja-Sjálandi. Ekki liggur fyrir niðurstaða úr rannsókn á þriðja sýninu.

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, tilkynnti um bannið í gær og er nú búið að loka öllum skólum og öllum fyrirtækjum og þjónustu sem ekki er brýn nauðsyn til að halda opnum. Bannað er að yfirgefa borgina nema brýna nauðsyn beri til og eru allir stöðvaðir við borgarmörkin. 

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að ekki hafi verið annað hægt en að grípa til aðgerða strax til að koma í veg fyrir frekari smit. Verið er að skima alla þá sem hafa verið í samskiptum við fjölskylduna að undanförnu og enn sem komið er hefur enginn greinst með Covid-19. Þetta vekur vonir um að ekki þurfi að framlengja útgöngubannið. 

Heilbrigðisyfirvöld hafa aftur á móti ekki getað fundið út hvernig þetta afbrigði veirunnar komst til landsins og að sögn landlæknis, Ashley Bloomfield, beinist rannsóknin einkum að vinnustað móðurinnar en hún starfar hjá fyrirtæki sem annast þvottaþjónustu fyrir alþjóðleg flugfélög. Tenging við landamærin sé því augljós. Hann tekur fram að konan hafi ekki mætt til vinnu í átta daga áður en hún greindist með smit.

25 af 5 milljóna þjóð hafa látist úr Covid-19

Götur Auckland voru að mestu auðar í morgun og úrhellisrigning dró enn frekar úr ferðum fólks utandyra. Aftur á móti eru langar raðir á þeim stöðum þar sem skimað er fyrir Covid-19. Eins eru langar raðir við vegtálma lögreglu þar sem fólk reyndi að komast út úr borginni þrátt fyrir lokun.  

Vegna smitanna hefur nágrannaríkið Ástralía fallið frá heimild til að ferðast á milli landanna tveggja án sóttkvíar tímabundið. 

Þetta er í fyrsta skipti í tæpt hálft ár sem sóttvarnareglur eru hertar í landinu en Nýja-Sjáland hefur hlotið mikið lof fyrir aðgerðir vegna Covid-19. Aðeins 25 hafa látist þar af völdum Covid-19, færri en á Íslandi, en íbúar Nýja-Sjálands eru 5 milljónir talsins. 

Byrja að bólusetja á laugardag

Fyrsti skammtur bóluefnis kom til Nýja-Sjálands í dag, um 60 þúsund skammtar af Pfizer/BioNTech-bóluefninu komu til Auckland og verður byrjað að bólusetja starfsfólk á landamærum og þá sem vinna á sóttvarnahótelum á laugardag. 

Öllu var lokað í Auckland í tvær vikur í ágúst eftir að nýtt hópsmit kom upp þegar starfsmaður sem vinnur með frosna innflutta matvöru greindist með Covid. Annars hafa íbúar landsins búið við talsvert frjálsræði undanfarna mánuði.

Nokkur smit af bráðsmitandi afbrigði sem fyrst greindist í Suður-Afríku greindust í borginni fyrir þremur vikum en þau voru öll rakin til hótels þar sem fólk sem hefur komið frá útlöndum dvelst meðan á sóttkví stendur. Ekki þurfti að grípa til hertra aðgerða vegna þessara smita. 

mbl.is

Bloggað um fréttina