Sjálfstæðissinnar með meirihluta

Pere Aragones er talinn líklegastur til að taka við sem …
Pere Aragones er talinn líklegastur til að taka við sem forseti katalónsku heimastjórnarinnar. Hann hefur raunar gegnt embættinu frá því í september, sem staðgengill Quim Torra sem missti kjörgengi eftir að hafa neitað að fjarlægja tákn sjálfstæðissinna úr ríkisbyggingum. AFP

Sjálfstæðissinnar unnu sigur í héraðskosningum sem fram fóru í Katalóníu á sunnudag. Þegar yfir 99% atkvæða hafa verið talin eru þrír flokkar, sem allir styðja sjálfstæði frá Spáni, með 74 sæti á þinginu af 135, og bættu við sig fjórum sætum frá síðustu kosningum sem haldnar voru árið 2017. Kjörsókn var aðeins 53% og hefur aldrei verið minni.

„Ég vil senda yfirvöldum í Evrópu skilaboð: niðurstaðan er skýr,“ segir Pere Araognes, formaður Lýðræðislega vinstriflokksins í Katalóníu. Flokkurinn hlaut næstflest atkvæði í kosningunum á eftir Sósíalistaflokknum, sem styður sambandið við Spán. Þar sem sjálfstæðissinnar eru í meirihluta á þinginu er Aragones talinn líklegastur til að verða næsti leiðtogi héraðsins.

„Við, flokkar sjálfstæðissinna, höfum meirihluta. Katalanar hafa sagt hug sinn og nú er tími til að semja um þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfsákvörðunarrétt. Vinsamlegast takið þátt,“ sagði hann, að því er virðist í ávarpi til yfirvalda í Evrópu.

Héraðsstjórn Katalóníu boðaði sem kunnugt er til atkvæðagreiðslu um sjálfstæði árið 2017 í óþökk spænskra stjórnvalda, sem varð til þess að lögregla var kölluð til. Lýsti katalónska þingið í kjölfarið yfir sjálfstæði frá Spáni, sem varð til þess að forsætisráðherra Spánar virkjaði lítið nýtt stjórnarskrárákvæði og leysti Carles Puigdemont, forsætisráðherra heimastjórnarinnar, frá völdum. Hann situr nú á Evrópuþinginu eftir tímabundna útlegð.

Níu katalónskir stjórnmálamenn voru í fyrra dæmdir í 9-13 ára fangelsi fyrir landráð.

mbl.is

Bloggað um fréttina