Kærður á grundvelli Ku Klux Klan-laga

Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti. AFP

Bennie Thompson, fulltrúardeildarþingmaður demókrata frá Mississippi-ríki, hefur kært Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, fyrir brot á lögum frá árinu 1871 sem kennd eru við Ku Klux Klan-samtökin. Thompson segir Trump hafa gerst brotlegan við lögin með því að hvetja til innrásarinnar í bandaríska þinghúsið 6. janúar sl.

Rudy Giuliani, lögmaður og stuðningsmaður Trump, og öfgakynþáttahyggjuhóparnir Proud Boys og Oath Keepers eru einnig kærðir fyrir sömu háttsemi, þ.e. að hafa hvatt til innrásarinnar og þar með reynt að koma í veg fyrir að bandaríska þingið gæti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og staðfest kjörið á Joe Biden sem næsta Bandaríkjaforseta.

Kæran var lögð fram fyrir alríkisdómstól í Washington D.C. þremur dögum eftir að öldungadeild Bandaríkjaþings sýknaði Trump af ákæru um embættisafglöp með því að hafa hvatt til innrásarinnar. 57 þingmenn vildu sakfella Trump en það dugði ekki til þar sem þurfti tvo þriðju eitt hundrað þingmanna til að sakfella Trump.

Í kæru Thompson er því haldið fram að Trump, Giuliani og liðsmenn Oath Keepers og Proud Boys hafi staðið saman í samsæri og hafi með ógnunum, hótunum og valdi reynt að koma í veg fyrir að hann gæti sinnt starfi sínu sem þingmaður.

Bennie Thompson, fulltrúadeildarþingmaður demókrata frá Mississippi.
Bennie Thompson, fulltrúadeildarþingmaður demókrata frá Mississippi. AFP
mbl.is