Segir fjölskylduna halda sér í gíslingu

Frá Dubai. Sjá má Burj Khalifa-turninn á myndinni.
Frá Dubai. Sjá má Burj Khalifa-turninn á myndinni. AFP

Dóttir leiðtoga Dubai sakaði föður sinn um að halda sér í gíslingu í leyniskilaboðum sem hún sendi vinum sínum. Prinsessan Latifa Al Maktoum, sem gerði tilraun til að flýja landið árið 2018, kveðst óttast um líf sitt. 

Þetta kemur fram á vef BBC, en þar segir að fréttaskýringaþátturinn Panorama hafi séð myndskeið þar sem prinsessan heldur því fram að hermenn hafi byrlað henni lyf þegar hún reyndi að flýja landið í báti. Þeir handsömuðu hana og fluttu hana til baka þar sem hún hefur verið í haldi. 

BBC segir að eftir það hafi engin leyniskilaboð borist til vina hennar en þeir hvetja Sameinuðu þjóðirnar til að grípa til aðgerða.

Talsmenn Dubai og Sameinuðu arabísku furstadæmanna hafa sagt að Latifa sé örugg í faðmi fjölskyldunnar.

Mary Robinson, fyrrverandi mannréttindastjóri SÞ, hitti Latifu árið 2018. Hún sagði eftir þann fund að prinsessan væri ung kona sem ætti við vandamál að etja. Í dag heldur Robinson því hins vegar fram að fjölskyldan hafi beitt sig skelfilegum blekkingum. 

Mohammed Bin Rashid Al-Maktoum, leiðtogi Dubai og faðir Latifu.
Mohammed Bin Rashid Al-Maktoum, leiðtogi Dubai og faðir Latifu. AFP

Robinson, sem er jafnframt fyrrverandi forseti Írlands, hefur bæst í hóp þeirra sem hafa kallað eftir því að greint verði frá því hvar Latifa sé stödd og hvernig henni heilsist. 

„Ég hef enn miklar áhyggjur af Latifu. Hlutir hafa breyst. Og ég tel að rannsókn ætti að hefjast,“ sagði hún.

Mohammed bin Rashid Al Maktoum, leiðtogi Dubai og faðir Latifu, er einn auðugasti þjóðarhöfðingi heims. Hann er jafnframt varaforseti Sameinuðu arabísku furstadæmanna. 

Mary Robinson.
Mary Robinson. mbl.is/Eyþór

Umrædd myndskeið voru tekin upp á síma Latifu yfir nokkurra mánaða skeið. Þeim var deilt áfram með leynd um það bil ári eftir að hún var tekin höndum. BBC segir að myndskeiðin hafi verið tekin inni á baðherbergi þar sem það var eina herbergið sem hún gat læst að sér. 

Latifa lýsir því m.a. hvernig hún barðist um á hæl og hnakka þegar hermenn reyndu að flytja hana úr bátnum. Hún hafi t.d. bitið hermann í handlegg þar til hann veinaði. 

Þá segir hún frá því að hún hafi misst meðvitund eftir að hafa fengið deyfilyf. Hún hafi svo verið færð um borð í einkaþotu og var komin til Dubai þegar hún loks rankaði við sér.

Hún heldur því enn fremur fram að hún sé í haldi í hús þar sem búið er að setja lokur fyrir dyr og glugga auk þess sem nokkrir lögreglumenn standi þar vörð. Hún tekur fram að hún hafi hvorki fengið læknisaðstoð né aðstoð lögmanna. 

Prinsessan Latifa Al Maktoum í einu myndskeiðanna.
Prinsessan Latifa Al Maktoum í einu myndskeiðanna. Skjáskot af vef BBC
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert