Átök eftir handtöku rappara

Frá óeirðunum í Madríd í kvöld.
Frá óeirðunum í Madríd í kvöld. AFP

Lögreglu og mótmælendum lenti saman í spænsku borgunum Madríd og Barcelona í kvöld þar sem fólk kom saman til að mótmæla fangelsisvist rapparans Pablo Hasel.

Hasel var dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir Twitter-færslur og texta í lögum sínum þar sem hann var sagður upphefja hryðjuverkastarfsemi auk þess sem hann var sakaður um meiðyrði gagnvart spænsku krúnunni og ríkinu.

Samkvæmt frétt AFP komu nokkur hundruð mótmælendur saman á torgi í Madríd þar sem lausnar Hasel var krafist. Stórir borðar þar sem ritskoðun var mótmælt voru sjáanlegir.

Grímuklæddir mótmælendur hentu flöskum í átt að lögreglu og lögregla skaut gúmmíkúlum í átt að hópi mótmælenda.

Mótmælendur kröfðust þess að Hasel yrði látinn laus.
Mótmælendur kröfðust þess að Hasel yrði látinn laus. AFP

Svipað var uppi á teningunum í Barcelona en alls voru sex handteknir í kvöld.

Hasel var handtekinn í háskólanum í Lleida í Katalóníu í gær en þar hafði hann lokað sig inni á mánudag til að forðast fangavist. Frest­ur Hasel til að gefa sig fram við lög­reglu rann út á föstu­dag­inn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert