Mun færri smit og færri dauðsföll

Sýni tekið. Smitum hefur fækkað víða um heim en baráttunni …
Sýni tekið. Smitum hefur fækkað víða um heim en baráttunni við kórónuveiruna er ekki lokið. AFP

Fjöldi nýrra kórónuveirusmita á heimsvísu minnkaði um 16% í síðustu viku og nam 2,7 milljónum samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO. Fjöldi dauðsfalla minnkaði einnig í síðustu viku um 10% og voru þau 81 þúsund.

WHO skiptir heiminum í sex starfssvæði og í fimm þeirra féll nýgengi smita um meira en 10%, en 7% fjölgun varð á Austur-Miðjarðarhafssvæðinu.

Þá lækkaði nýgengi smita um 20% í Afríku og á Vestur-Kyrrahafssvæðinu í síðustu viku, um 18% í Evrópu, 16% í Norður- og Suður-Ameríku og 13% í Suðaustur-Asíu.

„Þetta sýnir að einfaldar lýðheilsuaðgerðir virka,“ segir Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO. „Það sem skiptir máli núna er hvernig við bregðumst við þessari þróun. Það er ekki búið að slökkva eldinn, en við höfum minnkað stærð hans. Ef við hættum að berjast við þetta á einhverjum vígstöðvum mun þetta koma aftur af miklum krafti.“

Tedros Adhanom Ghebreyesus.
Tedros Adhanom Ghebreyesus. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert