13 og 16 ára stúlkur fundust látnar

Kynbundnu ofbeldi mótmælt á Indlandi.
Kynbundnu ofbeldi mótmælt á Indlandi. AFP

Lík tveggja stúlkna sem tilheyra dalíta stéttinni á Indlandi fundust á bæ fjölskyldu þeirra í Uttar Pradesh héraði á norðanverði landinu. Stúlkurnar voru 13 og 16 ára gamlar. 

Þriðja stúlkan, 17 ára, fannst illa haldin og berst fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi. 

Stúlkurnar þrjár tilheyrðu allar sömu fjölskyldunni, eldri tvær voru systur og yngsta stúlkan frænka þeirra.

Fjölskyldan segir að stúlkurnar hafi fundist á miðvikudagskvöld, bundnar á höndum og fótum. Þær höfðu farið fyrr um daginn að sækja dýrafóður og fjölskyldan hafið leit að þeim þegar þær sneru ekki aftur innan klukkustundar líkt og vanalega. 

BBC hefur eftir lögreglunni á Indlandi að stúlkurnar hafi dáið úr eitrun. Stúlkurnar tilheyra stétt dalíta, sem áður voru þekktir sem „hinir ósnertanlegu“, og eru lægsta stétt indverska stéttakerfisins. Þrátt fyrir ýmis lög sem hafa þann tilgang að tryggja aukna vernd fyrir Dalíta verða þeir enn fyrir gríðarlegum fordómum og ofbeldi á Indlandi. 

Mikil umræða hefur verið um kynbundið ofbeldi gegn konum á Indlandi síðan 2012 þegar hópur manna nauðgaði konu í strætisvagni í Delí, höfuðborg landsins, og myrtu hana síðan. Málið varð kveikjan að gríðarstórri mótmælaöldu á Indlandi og var lögum í landinu breytt. Þrátt fyrir það virðist ekkert hafa dregið úr kynbundnu ofbeldi. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert