Fallast á afnám refsinga fyrir neysluskammta

Bent Høie heilbrigðisráðherra og Guri Melby menntamálaráðherra kynntu í morgun …
Bent Høie heilbrigðisráðherra og Guri Melby menntamálaráðherra kynntu í morgun niðurstöðu norsku ríkisstjórnarinnar um breytingu á norskri fíkniefnastefnu, Rusreformen svokölluðu, sem hefur verið til umræðu um árabil en komst í fastan farveg með 400 blaðsíðna skýrslu starfshóps á vegum stjórnvalda sem lögð var fram í desember 2019. Ljósmynd/Leif Martin Kirknes/Frifagbevegelse

„Við afnemum refsiábyrgð fyrir neyslu og vörslur lítilla skammta fíkniefna til eigin neyslu. Þetta táknar að efnin eru eftir sem áður bönnuð en refsingarnar eru afnumdar.“

Þetta sagði norski heilbrigðisráðherrann Bent Høie á blaðamannafundi í morgun þar sem hann, ásamt Guri Melby, menntamálaráðherra og leiðtoga Venstre-flokksins, kynnti niðurstöðu norsku ríkisstjórnarinnar um hina umdeildu breytingu á norskri fíkniefnastefnu, Rusreformen eins og hún kallast, í kjölfar 400 blaðsíðna langrar skýrslu starfshóps á vegum stjórnvalda sem lögð var fram í desember 2019 og lagði til umtalsverðar breytingar á stefnu stjórnvalda í refsingum fyrir neysluskammta fíkniefna.

Venstre-flokkurinn þykir standa uppi sem sigurvegari í þessu umdeilda máli enda hefur hann barist einna harðast fyrir vægari stefnu í málaflokknum. „Áratugir af refsingum hafa sýnt okkur að sú leið virkar ekki,“ sagði menntamálaráðherra á fundinum í morgun, þvert á móti gerðu refsingar þeim, sem glíma við fíkn, erfiðara um vik að leita sér viðeigandi hjálpar auk þess sem viðurlög við fíkniefnabrotum stæðu því í vegi að aðstandendur uppgötvuðu vanda ástvina sinna.

„Við ætlum ekki lengur að standa hjá og horfa á fólk niðurlægt og auðmýkt og það kallað glæpamenn þegar það í raun stríðir við vanheilsu,“ sagði Melby enn fremur.

Dregið úr magninu

Mörgum þóttu tillögur starfshópsins um refsileysismörk fíkniefna óðs manns æði, svo sem lesa má um í fréttinni sem hlekkjað er í hér að ofan, og sagði Åshild Bruun-Gundersen, þingkona Framfaraflokksins (FrP), það „algjörlega villt að setja það fram í fullri al­vöru að fólk geti gengið um með 300 neyslu­skammta á sér að verðmæti 20.000 krón­ur [norskar]. Ég ábyrg­ist að Fram­fara­flokk­ur­inn mun aldrei greiða þessu at­kvæði.“

Ríkisstjórnin gerði nokkrar breytingar á því magni sem starfshópurinn lagði til og kynnti Høie heilbrigðisráðherra í morgun að stjórnin væri tilbúin að gera eftirfarandi skammtastærðir fíkniefna refsilausar, þegnar landsins mættu þó ekki hafa í vörslum sínum fleiri en þrjár tegundir samtímis (magn í sviga er tillaga starfshópsins, sem ekki skilgreindi alls staðar magn á bak við neysluskammt):

  • MDMA: 0,5 grömm (1 gramm)
  • Am­feta­mín: 2 grömm (5 grömm)
  • Kókaín: 2 grömm (5 grömm)
  • Heróín: 2 grömm (5 grömm)
  • Kannabisefni: 10 grömm (64 neysluskammtar)
  • GHB: 0,5 desilítrar (15 neysluskammtar)
  • LSD: 1 neyslu­skammt­ur (sama)
  • Khat: 500 grömm (2 kíló)
  • Svepp­ir: 20 grömm (15 neysluskammtar)

Auk þessa lagði ríkisstjórnin fram aðrar og hærri magntölur, nánast þær sömu og í upphaflegri tillögu starfshópsins, þar sem meginreglan skuli vera refsileysi, en vörsluaðila efnis eða efna verði hins vegar gert að sækja fund með ráðgjafa á vegum síns sveitarfélags, ellegar greiða 2.400 krónur (tæpar 37.000 ISK) í sekt sé fundarboði ekki sinnt, „reynist sektin hinum sektaða ekki of þung byrði“ er þó haft sem varnagli.

„Gjafapakki glæpagengjanna“

Tillaga ríkisstjórnarinnar verður borin undir atkvæði Stórþingsins á næstu vikum og játa fjórir ráðherrar Kristilega þjóðarflokksins KrF að þeir óski málinu ekki brautargengis þrátt fyrir að sitja í þeirri ríkisstjórn sem fallist hefur á tilslakanirnar.

„Okkar von er að Stórþingið vinni málið lengra, íhugi það vel og rækilega og velti því fyrir sér hvort rétt sé að færa þennan málaflokk frá réttarkerfinu yfir til heilbrigðiskerfisins,“ segir Kjell Ingolf Ropstad, formaður KrF og ráðherra barna- og fjölskyldumála, við norska dagblaðið VG.

Kveðst Ropstad vilja strangari reglur og að það hafi alvarlegar afleiðingar mæti fólk ekki á boðaðan ráðgjafarfund. „Þú átt að fá hjálp, þú átt að fá stuðning og þú átt að fá meðferð. Það er lykillinn að því að ungt fólk endurtaki ekki það sem það hefur gert,“ segir hann.

Trygve Slagsvold Vedum, leiðtogi Miðflokksins, kveðst ákaflega ósáttur við ákvörðun ríkisstjórnarinnar, enda hafa mótmælin við afnámi refsinga verið hvað háværust frá hans flokki og Framfaraflokknum.

Trygve Slagsvold Vedum, leiðtogi Miðflokksins, brást hart við tillögum starfshópsins …
Trygve Slagsvold Vedum, leiðtogi Miðflokksins, brást hart við tillögum starfshópsins á sínum tíma og kallaði þær gjafapakka til glæpagengjanna. Ljósmynd/Miðflokkurinn

„Þetta er gjafapakki til glæpagengjanna,“ sagði Vedum á sínum tíma, þegar starfshópurinn kynnti niðurstöður sínar, en hann telur að með tilslökunum reynist glæpagengjum auðveldara að fá fólk til að sinna fyrir sig fíkniefnasölu. „Veikt fólk er notað sem afsökun til að auðvelda aðgengið. Mér finnst sjálfsagt að breyta lögunum þannig að þau styðji við þá sem eru veikir, en á sama tíma eigum við að leggjast gegn þessu af hörku,“ sagði Vedum.

Nicholas Wilkinson, fulltrúi heilbrigðismála í Sósíalíska vinstriflokknum, SV, fellst ekki á sjónarmið formanns Miðflokksins. „Þetta er mikilvægur dagur í norskum stjórnmálum. Þessar breytingar munu auðvelda fíkniefnaneytendum í Noregi lífið. Ég mun leggja mitt lóð á vogarskálarnar í Stórþinginu til að bæta tillögu stjórnarinnar og koma fram breytingu þar sem aðstoð leysir refsingar af hólmi,“ skrifar Wilkinson í tölvupósti til norska ríkisútvarpsins NRK.

NRK

VG

TV2

Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert