Kona sem var skotin í höfuðið í mótmælum er látin

Fjölskylda Mya Thwate Thwate Khaing bíður eftir að lík hennar …
Fjölskylda Mya Thwate Thwate Khaing bíður eftir að lík hennar verði flutt frá sjúkrahúsinu. AFP

Tvítug kona sem var skotin í höfuðið í síðustu viku meðan á mótmælum stóð í höfuðborg Myanmar, Naypyidaw, er látin.

Mya Thwate Thwate Khaing var að mótmæla valdaráni hersins í landinu 9. febrúar þegar hún var skotin. Um er að ræða eina dauðsfallið sem opinberlega hefur verið greint frá í tengslum við valdaránið.

Mótmælin í Naypyidaw urðu ofbeldisfull eftir að öryggissveitir skutu gúmmíkúlum á mótmælendur. Læknar á sjúkrahúsinu þar sem Mya lést segja að að minnsta kosti tvær manneskjur til viðbótar hafi meiðst alvarlega af völdum alvörubyssukúlna.

Lík Mya Thwate Thwate Khaing flutt frá sjúkrahúsinu.
Lík Mya Thwate Thwate Khaing flutt frá sjúkrahúsinu. AFP

Sjúkrahúsið staðfesti dauða konunnar og sagði að hann verði rannsakaður. „Við munum skrásetja dánarorsökina og senda afrit til yfirvalda. Við viljum fá réttlæti,“ sagði læknir á sjúkrahúsinu.

Hann bætti því við að starfsfólk sjúkrahússins hafi verið undir miklum þrýstingi síðan Mya Thwate Khaing var lögð inn á gjörgæslu.

„Sumir hafa þegar hætt vegna pressunnar,“ sagði hann.

Líkið flutt á brott.
Líkið flutt á brott. AFP

Talsmaður hersins sem nú er orðinn aðstoðarupplýsingaráðherra, Zaw Min Tun, staðfesti fyrr í vikunni að Mya hefði verið skotin og að yfiröld myndu halda áfram að rannsaka málið.

Síðan hún var skotin hefur hún orðið táknmynd andspyrnunnar af hálfu mótmælenda. Þeir hafa safnast saman með stóra borða á götum úti og krafist réttlætis.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert