Nýtt veiruafbrigði í Noregi

Eitt tilfelli nýja afbrigðisins, B.1.525, hefur greinst í Þrándheimi sem …
Eitt tilfelli nýja afbrigðisins, B.1.525, hefur greinst í Þrándheimi sem sést hér að hluta, tvö í Viken en tæplega 20 í Ósló. Elsta smitið er frá 21. janúar en B.1.525-afbrigðið var fyrst greint í Noregi í fyrradag. Ljósmynd/Wikipedia.org/Åge Hojem

Nýtt afbrigði kórónuveirunnar greindist í Noregi á miðvikudaginn og gengur það undir heitinu B.1.525. Stökkbreyting afbrigðisins kallast E484K og hafa um það bil 35 tilfelli þess greinst í Danmörku, en alls hefur afbrigðið, sem líkist hvoru tveggja, breska og suðurafríska afbrigðinu svonefnda, fundist í 13 löndum.

Alls hafa 22 tilfelli B.1.525 greinst í Noregi eftir því sem dagblaðið VG greindi frá undir kvöld í gær, það elsta, eftir því sem næst verður komist, er frá 21. janúar en það nýjasta frá 8. febrúar. Fyrstu merki um B.1.525 í heiminum eru frá 15. desember. Af þeim sem greinst hafa í Noregi eru flestir í Ósló, tveir í nágrannafylkinu Viken og einn í Þrándheimi.

„Enn sem komið er vitum við ekki hvort þetta afbrigði er meira smitandi en önnur, en svo má vel vera,“ segir Line Vold, deildarstjóri við Lýðheilsustofnun Noregs, FHI, í fréttatilkynningu í gær. „Misvel er staðið að því milli landa að greina ný afbrigði veirunnar,“ segir Vold og bætir því við að auk Noregs séu það Bretland, Danmörk og Ísland sem harðast hafi gengið fram í slíkri greiningarvinnu.

Ný afbrigði eðlileg þróun veira

Hið svokallaða breska afbrigði veirunnar, B.1.1.7, er nú á bak við sjötta hvert kórónuveirutilfelli sem greinist í Noregi, en þar greindust í gær 326 ný heildartilfelli kórónuveiru, óháð afbrigðum, samanborið við 358 á miðvikudaginn og 286 á þriðjudag. Fram til þessa hafa um 700 tilfelli B.1.1.7 greinst í landinu og 42 tilfelli suðurafríska afbrigðisins.

Vold kveður norsk heilbrigðisyfirvöld hafa vakandi auga með nýjasta afbrigðinu eins og fyrri stökkbreytingunum, en eðlilegt sé að ný afbrigði veirunnar komi fram. „Við sjáum líka breytingar á hinum stökkbreyttu afbrigðunum sem hingað hafa komið. Ný afbrigði koma fram um gervalla heimsbyggðina, það er eðlileg þróun veira að vera í stöðugum hamskiptum,“ segir deildarstjórinn.

NRK

VG

Aftenposten

Dagsavisen

Tilkynning FHI

mbl.is

Bloggað um fréttina