Ríku löndin hamstra bóluefnaskammta

Heilbrigðisstarfsmaður undirbýr bólusetningu í Sydney í Ástralíu.
Heilbrigðisstarfsmaður undirbýr bólusetningu í Sydney í Ástralíu. AFP

Velmegandi ríki heimsins sjá fram á að fá milljarði fleiri skammta af bóluefni gegn Covid-19 en þau þurfa. Með þessum hætti sitja fátækari ríki eftir í súpunni og berjast við að ná í afgangsskammta, á sama tíma og heimurinn reynir að kveða faraldurinn í kútinn. 

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem baráttusamtök gegn fátækt gáfu út. Reuters greinir frá.

Í skýrslunni var það sérstaklega skoðað hverjum bóluefnaskammtar fimm helstu bóluefnaframleiðendanna, Pfizer, Moderna, AstraZeneca, Johnson & Johnson og Novavax, eru ætlaðir. Þá kom í ljós að Bandaríkin, Evrópusambandið, Bretland, Ástralía, Kanada og Japan hefðu nú þegar tryggt sér meira en þrjá milljarða bóluefnaskammta.

Löndin þurfa einungis rúmlega tvo milljarða skammta til þess að geta gefið öllum borgurum sínum tvo skammta af bóluefni. Því hafa þau tryggt sér um milljarði fleiri skammta en þau raunverulega þurfa. 

mbl.is