Bretland klári bólusetningu á eftir Íslandi

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, á rafrænum fundi G7-ríkjanna um helgina.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, á rafrænum fundi G7-ríkjanna um helgina. AFP

Öllum fullorðnum í Bretlandi verður boðinn fyrri skammtur af bóluefni gegn kórónuveirunni fyrir lok júlí. Þessu hefur Boris Johnson forsætisráðherra lofað.

Fáar þjóðir hafa bólusett fleiri en Bretar, en yfir 17 milljónir manna í landinu hafa fengið bóluefni – langflestir þó aðeins einn skammt.

Engu að síður gera áætlanir nú ráð fyrir að Íslendingar verði búnir að bólusetja á undan Bretum. Áætlanir íslenskra stjórnvalda miða að því að bólusetningum ljúki í lok júní, og er þá miðað við seinni skammtinn.

Í Bretlandi sem annars staðar er mest áhersla lögð á að bólusetja eldra fólk og aðra viðkvæma hópa svo slaka megi á samkomutakmörkunum. Bólusetningardagatal Breta miðar við að allir yfir fimmtugu, sem og ungt fólk með undirliggjandi sjúkdóma, verði bólusett fyrir 15. apríl.

Í frétt BBC segir að stefnt sé að því að opna skóla á Englandi að nýju 8. mars, en ólíklegt sé að aðrar tilslakanir taki gildi fyrir þann tíma.

Rétt um tíu þúsund tilfelli kórónuveirunnar greinast nú daglega í Bretlandi, og er nýgengi smita því um 200. Tilfellum hefur þó fækkað stöðugt síðustu sex vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert