Hleypti vinum fram fyrir röðina

Gines Gonzalez Garcia, til vinstri, og eftirmaður hans, Carla Vizzotti. …
Gines Gonzalez Garcia, til vinstri, og eftirmaður hans, Carla Vizzotti. Myndin var tekin í mars í fyrra þegar fyrsta tilfelli veirunnar hafði greinst í Argentínu. AFP

Gines Gonzalez Garcia heilbrigðisráðherra Argentínu sagði af sér embætti á föstudag eftir að upp komst að hann hefði misnotað vald sitt til að tryggja vinum og vandamönnum sínum aðgang að bóluefni áður en röðin var komin að þeim.

Upp um hann komst þegar blaðamaðurinn Horacio Verbitsky, sem er 71 árs, greindi frá því í beinni útvarpsútsendingu að hann hefði verið bólusettur áður en röðin var komin að honum þökk sé áralangri vináttu sinni við heilbrigðisráðherrann.

Hingað til hafa aðeins heilbrigðisstarfsmenn verið bólusettir að einhverju ráði í Argentínu, en bólusetning fólks yfir sjötugu hófst ekki fyrr en á miðvikudag í Bunos Aires-héraði. Fjölmiðlar greindu í kjölfarið frá því að aðrir einstaklingar vel tengdir ríkisstjórninni hefðu einnig fengið bólusetningu í heilbrigðisráðuneytinu. Saksóknari hefur hafið rannsókn á málinu.

Nýr heilbrigðisráðherra, Carla Vizzotti, tók við embættinu á laugardag. Vizzotti, sem er læknir að mennt, er sérmenntuð í bólusetningum en hún hafði áður verið undirráðherra í heilbrigðisráðuneytinu og séð um bóluefnakaup Argentínumanna.

mbl.is