Kveður Norðmenn storka Rússum

Ein fjögurra B-1B Lancer-sprengjuflugvéla lendir á Ørland-herflugvellinum í Þrændalögum upp …
Ein fjögurra B-1B Lancer-sprengjuflugvéla lendir á Ørland-herflugvellinum í Þrændalögum upp úr hádegi í dag. Rússneskur ritstjóri og fyrrverandi yfirmaður í Norðurflota Rússa segir Norðmenn hætta á að verða skotmark kjarnavopnaárásar með viðdvöl Lancer-vélanna sem mun standa næsta mánuðinn. Ljósmynd/Norski flugherinn

Rússneskur sérfræðingur í vígamálum telur norsk stjórnvöld storka rússneskum nágrönnum sínum með veru fjögurra bandarískra B-1B Lancer-sprengjuflugvéla sem lentu í dag á Ørland-herflugvellinum í Þrændalögum og munu dvelja þar næsta mánuðinn ásamt 200 bandarískum hermönnum.

Það er Dmitrij Litovkin sem þessu heldur fram við norska ríkisútvarpið NRK og segir hættu á að Ørland-flugvöllurinn og Noregur í heild sinni geti orðið skotmark kjarnorkuvopnaárásar Rússa, en rússneskar Tupolev Tu-160 sprengjuflugvélar, sem borið geta kjarnavopn, eru tíðir gestir úti fyrir norskri lofthelgi við norðan- og vestanvert landið.

Ráðast ekki á staðbundin skotmörk

„Þegar þeir eru úti í eftirlitsflugi eru þeir að æfa sig í að nota vopnabúrið um borð. Það gera hvorir tveggja, við og Ameríkanarnir,“ segir Litovkin, sem er ritstjóri varnarmálaútgáfu rússneska dagblaðsins Nezavisimaja Gazeta og fyrrverandi yfirmaður í rússneska Norðurflotanum.

Hann segir rússnesk stjórnvöld líta það mjög alvarlegum augum að bandarískur herstyrkur færist sífellt nær rússneskum landamærum. Þau líti svo á að óvissan aukist og um leið hættan á átökum.

Rússnesk Tupolev Tu-160-sprengjuflugvél sem borið getur 50 tonn af flugskeytum, …
Rússnesk Tupolev Tu-160-sprengjuflugvél sem borið getur 50 tonn af flugskeytum, þar á meðal kjarnorkuflaugar, náð 1,5-földum hljóðhraða og hefur 12.000 kílómetra flugþol. Ljósmynd/Rússneska varnarmálaráðuneytið

„Rússland ræðst ekki á staðbundin skotmörk heldur gerir stóra atlögu og beitir kjarnavopnum gegn andstæðingum sínum sem fyrirbyggjandi ráðstöfun [gegn árás]. Þar með verður Noregur eitt af þeim skotmörkum sem hætt er við kjarnorkuárás gegn, vegna þessara amerísku flugvéla,“ segir ritstjórinn.

Rússneska varnarmálaráðuneytið vill ekki tjá sig um málið við NRK, en utanríkisráðuneyti landsins reyndist tilbúið að ræða málin og tók undir mat Litovkins.

„Spennan eykst við rússnesku landamærin,“ segir Maria Zakharova, sem hefur orð fyrir ráðuneytinu. „Þarna er kominn öflugur möguleiki á að ráðast á land okkar. Við metum þetta útspil Óslóar ógn við öryggi á svæðinu.“

Tilkynnt fyrir löngu

Fyrr hafa rússnesk yfirvöld greint frá því að þau muni grípa til aðgerða gegn því sem þau álíti „ögrandi hernaðartilburði af hálfu Ameríkana“ og benda á að Lancer-sprengjuvélarnar geti búið yfir mjög háþróuðum vopnabúnaði og flugtíminn frá Ørland-herflugvellinum að rússnesku landamærunum sé mjög stuttur.

Eirik Kristoffersen hershöfðingi, sem tók við stöðu æðsta yfirmanns norska hersins að varnarmálaráðherra undanskildum, stöðu sem kallast forsvarssjef, í ágúst í fyrra, segir að um sé að ræða heræfingu sem tilkynnt hafi verið um fyrir löngu og koma muni í ljós hver áhrif vera bandarísku gestanna hafi á samband nágrannaríkjanna Noregs og Rússlands.

B-1B Lancer-sprengjuflugvél á flugi yfir Kyrrahafi.
B-1B Lancer-sprengjuflugvél á flugi yfir Kyrrahafi. Ljósmynd/Wikipedia.org

„Rússneskum yfirvöldum er fullkunnugt um að hingað voru væntanlegar bandarískar sprengjuflugvélar sem munu stunda æfingar með norskum herafla með þetta land sem bækistöð svo ég kalla þetta vel tilkynnta æfingu. Þetta er þýðingarmikil samhæfingaræfing með okkar herafla og við munum athafna okkur á svæðum sem eru langa vegu frá Rússlandi,“ segir Kristoffersen við NRK.

Hershöfðinginn kveður þjálfun á borð við þá, sem nú standi fyri dyrum, hluta af aðild Noregs að Atlantshafsbandalaginu NATÓ. „Við höldum okkur langt frá rússnesku landamærunum þegar við erum að æfa með bandarísku flugvélunum.“

Rússneskar Sukhoj Su-35-orrustuþotur við æfingar yfir Eystrasalti. Að sögn ríkisfréttastofunnar …
Rússneskar Sukhoj Su-35-orrustuþotur við æfingar yfir Eystrasalti. Að sögn ríkisfréttastofunnar RIA æfa flugmenn þeirra sig í að skjóta niður langdrægar sprengjuflugvélar sem líklega er engin tilviljun. Ljósmynd/Rússneska varnarmálaráðuneytið

Samkvæmt rússnesku ríkisfréttastofunni  RIA æfa rússneskar orrustuþotur sig um þessar mundir í að skjóta niður langdrægar sprengjuflugvélar yfir Eystrasalti og er ástæðan sögð vera viðvera bandarísku Lancer-vélanna í Noregi.

Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, kveður það enga nýlundu að herafli bandalagsþjóða Noregs heimsæki landið. „Ørland er okkar helsti herflugvöllur. Að flugvélar bandamanna séu þar á ferð er bara hluti af vörnum Noregs,“ segir ráðherra og bætir því við að Lancer-vélarnar verði í Noregi í um það bil mánuð.

NRK

NRKII (Lancer-vélarnar lenda)

NRKIII (greint frá komu vélanna)

Teknisk Ukeblad

Vefsíða hersins

mbl.is