Olíuleki versta umhverfisslys í nokkurn tíma

Olíuleki setur áform um strandferðir Ísraela í uppnám.
Olíuleki setur áform um strandferðir Ísraela í uppnám. AFP

Olíuleki við strendur Ísraels sem kom í ljós í síðustu viku virðist ætla að snúast upp í versta umhverfisslys í landinu um nokkurt skeið, ef marka má frásagnir bandarískra fjölmiðla.

Rannsókn á lekanum stendur enn yfir en á þessu augnabliki er talið að skip við strendur landsins hafi sullað tugum ef ekki hundruðum tonna af olíu í Miðjarðarhafið. Óljóst er hvað kom til.

Umhverfisráðuneyti Ísrael hefur beint því til landsmanna að baða sig ekki við strendur landsins og gildir það um svæðið allt frá landamærum við Líbanon í norðri og suður að Gaza-svæðinu.

Vegna óhagstæðra veðurskilyrða er talið að tjara og olía hafi borist víðar um hafið en ella hefði gerst. Miklum öldugangi er spáð í vikunni, sem gæti dreift spilliefnum baðstranda á milli, sem gerir hreinsunarstarf örðugra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert