Stöðvuðu myndatöku á lestarteinunum

Lestin var á leið á milli Berlínar og Neuruppin, bæjar …
Lestin var á leið á milli Berlínar og Neuruppin, bæjar í Brandenburg. AFP

Farþegar í lest á milli Berlínar til smábæjarins Neuruppin í Brandenburg í Þýskalandi þurftu að sætta sig við nokkrar tafir á ferðalagi lestarinnar um helgina.

Ástæðan var ekki smávægileg bilun í búnaði lestarinnar eins og títt er heldur var hún af óhefðbundnari toga að þessu sinni. 

Orsök tafanna var sú að stöðva þurfti lestina vegna tveggja stúlkna sem reyndust vera að leik á lestarteinunum. 

Að sögn lögreglu á svæðinu voru þær uppteknar við myndatöku þegar komið var að þeim. Sú þeirra sem var ellefu ára sat fyrir og sú sem var fjórtán ára mundaði farsímann.

Stúlkurnar játuðu að hafa verið að þvælast þar sem þær máttu það ekki og var farið með þær til foreldra þeirra. Farþegar lestarinnar komust loks leiðar sinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert