Þegar kóngur kom í veg fyrir valdarán

Þrír neituðu að verða við skipun Tejero um að leggjast …
Þrír neituðu að verða við skipun Tejero um að leggjast á gólfið. Frá útsendingu spænska ríkissjónvarpsins þennan dag.

Fjörutíu ár verða á þriðjudag liðin frá valdaránstilraun hægri sinnaðra hermanna á Spáni. Svona vatt atburðarásinni fram, í brothættu lýðræðisríki aðeins sex árum eftir að einræðisherrann Francisco Franco lést árið 1975:

Að kvöldi mánudagsins 23. febrúar 1981 réðust tvö hundruð liðsmenn herlögreglunnar Guardia Civil inn í neðri deild þingsins í Madríd, þar sem þingmenn ræddu hver skyldi verða næsti forsætisráðherra.

Sá átti að taka við af Adolfo Suárez, sem fyrstur manna hafði verið lýðræðislega kjörinn í embættið, en mætti á þessum tíma harðri gagnrýni meðal annars vegna slæms atvinnuleysis og mikillar verðbólgu. Suárez hafði tilkynnt um fyrirhugaða afsögn sína í sjónvarpi nokkru fyrr, eða þann 29. janúar, en enn átti eftir að ákveða arftakann.

Herlögreglumennirnir hleyptu af hríðskotabyssum í loft byggingarinnar þar sem þeir gengu inn í salinn. Fremstur í flokki þeirra var undirofurstinn Antonio Tejero, sem skipaði öllum í salnum að leggjast á gólfið.

Enn eru kúlnaför í lofti þinghússins.
Enn eru kúlnaför í lofti þinghússins. Ljósmynd/Benjamín Núñez González

Tóku yfir útsendingarver

Aðeins þrír neituðu að verða við þeirri skipun. Forsætisráðherrann Adolfo Suárez, varaforsætisráðherrann Gutierrez Mellado og leiðtogi Kommúnistaflokksins, Santiago Carrillo.

Og á sama tíma og um 350 þingmenn voru teknir í gíslingu í miðborg Madrídar fyrirskipaði hershöfðinginn Jaime Milans del Bosch – harðlínumaður frá valdatíð Francos – að herlið og skriðdrekar skyldu fara út á götur Valenciu á Austur-Spáni, byltingunni til stuðnings.

Í höfuðborginni tóku uppreisnarmenn yfir útsendingarver ríkismiðilsins fyrir bæði sjónvarp og útvarp. Um níutíu mínútum síðar hafði lögregla þó kveðið þá í kútinn.

Meðan á þessu stóð höfðu margir íbúar Madrídar læst sig inni í híbýlum sínum og bjuggu sig jafnvel undir að flýja.

Konungur skerst í leikinn

Nokkrum árum fyrr, árið 1978, var innleidd á Spáni ný stjórnarskrá. Hún naut yfirgnæfandi stuðnings í þjóðaratkvæðagreiðslu og með henni var komið á þingbundnu konungdæmi. Um leið var staða Jóhanns Karls Spánarkonungs fest í sessi, en Franco hafði valið hann til að taka við stjórnartaumum landsins eftir andlát sitt.

Konungur brást nú hratt við tíðindum af valdaráni. Frá Zarzuela-höllinni í grennd við Madríd hringdi hann í hershöfðingja vítt og breitt um landið og fyrirskipaði þeim að virða nýju ríkisstjórnina.

Hershöfðinginn Alfonso Armada, einn uppreisnarmanna og pólitískur leiðtogi þeirra, hafði fyrr á ævinni kennt konungi herkænsku og síðar orðið náinn ráðgjafi hans.

Hann hélt nú í höllina á fund konungs, þar sem hann hugðist bjóða honum að leiða nýja ríkisstjórn í stað þeirrar sem þá sat, í von um að koma til móts við kröfur Tejero en þó forðast algjöra afturför til einræðisstjórnarinnar sem áður ríkti.

Jóhann Karl meinaði aftur á móti Armada inngöngu í höllina og hafnaði einnig tilboði hans um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Æðsti yfirmaður hersins

Og upp úr klukkan eitt eftir miðnætti birtist konungur löndum sínum í sjónvarpinu, klæddur búningi æðsta yfirmanns hersins – sem hann var einnig – og sagðist hafa fyrirskipað að allt yrði gert til að viðhalda lögum og reglu samkvæmt stjórnarskrá.

„Krúnan [...] mun ekki þola, með nokkrum hætti, gjörðir eða hegðun nokkurs sem reynir, með beitingu afls, að trufla lýðræðislega framkvæmd stjórnarskrárinnar.“

Um hádegi daginn eftir, 24. febrúar, gáfust uppreisnarmenn upp í þinginu.

Blaðamenn og lögregla bíða eftir að þingmenn komi út úr …
Blaðamenn og lögregla bíða eftir að þingmenn komi út úr þinghúsinu eftir gíslatökuna. AFP

Þekkti herforingjana

Herréttur dæmdi Armada, Tejero og del Bosch alla til þrjátíu ára fangelsisvistar. Armada var náðaður 1988 en del Bosch var sleppt 1990 og Tejero árið 1996.

Síðar sagði Jó­hann Karl sjálf­ur að hann hefði vitað að her­for­ingjarn­ir myndu fara að ósk­um hans, þar sem Franco sjálf­ur hefði til­nefnt hann sem sinn arf­taka auk þess sem hann þekkti flesta þá sem stóðu að vald­arán­inu.

Kóngurinn fyrrverandi situr nú í útlegð í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Jóhann Karl, fyrrverandi konungur Spánar, hér í útför systur sinnar …
Jóhann Karl, fyrrverandi konungur Spánar, hér í útför systur sinnar í janúar á síðasta ári. AFP
Antonio Tejero, hér fyrir miðju, við uppgröft jarðneskra leifa Francos …
Antonio Tejero, hér fyrir miðju, við uppgröft jarðneskra leifa Francos í október árið 2019. AFP
mbl.is