Barnaníðsmál hafa margfaldast á Spáni

Rannsakendurnir telja að kynferðislegt ofbeldi gegn börnum sé aðeins tilkynnt …
Rannsakendurnir telja að kynferðislegt ofbeldi gegn börnum sé aðeins tilkynnt í 10% tilvika. Ljósmynd/Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Fjöldi barnaníðsmála sem tilkynnt hafa verið til yfirvalda á Spáni hefur fjórfaldast síðasta áratuginn samkvæmt nýrri rannsókn sem birtist í dag. Rannsakendur segja að aukinn aðgangur að interneti og samfélagsmiðlum hafi gert börn berskjaldaðri fyrir misnotkun en áður.

Alls voru 1.093 mál um níð á börnum eða unglingum tilkynnt til ANAR-stofnunarinnar, góðgerðarsamtaka gegn ofbeldi gegn börnum, á árinu. Til samanburðar voru málin 278 talsins árið 2008. Talið er að kynferðislegt ofbeldi gegn börnum sé aðeins tilkynnt í um 10% tilvika.

Í rannsókninni kemur fram að fjögur af hverjum fimm fórnarlömbum kynferðislegs ofbeldis eru stúlkur, flestar á táningsaldri. Flestir drengir voru undir 12 ára aldri þegar þeir voru misnotaðir.

Óviðeigandi snertingar eða káf var oftast tilkynnt en í um 10% mála hafði fórnarlömbum verið nauðgað og annað líkamlegt ofbeldi átt sér stað.

„Getum við sem samfélag sætt okkur við þessar tölur, vitandi það að í hverju einasta tilfelli er barn sem skaðast óendanlega?“ spurði Sonsoles Bartolome, yfirlögfræðingur ANAR-stofnunarinnar, á blaðamannafundi þegar niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar.

Benjamin Ballesteros, yfirmaður stofnunarinnar, sagði greiðan aðgang að klámi á netinu eiga þátt í vaxandi ofbeldi gegn börnum. „Við teljum að það sé klárlega tenging á milli skefjalausrar notkunar á neti og klámi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert