Fauci: Staðið okkur verr en flestar aðrar þjóðir

Dr. Anthony Fauci, sóttvarnarlæknir Bandaríkjanna.
Dr. Anthony Fauci, sóttvarnarlæknir Bandaríkjanna. AFP

„Ég tel að ef við skoðum söguna, þá höfum við staðið okkur verr heldur en flestar aðrar þjóðir þrátt fyrir að við séum mjög þróuð og rík þjóð. Það er mjög erfitt að líta til baka og segja nákvæmlega hvað fór úrskeiðis. Þetta var bara slæmt.“

Þetta sagði Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, í viðtali á sjónvarpsstöðinni ABC í gær um það hvernig gengið hefur að takast á við kórónuveirufaraldurinn í Bandaríkjunum en þar hafa langflestir látið lífið af völdum Covid-19 eða yfir hálf milljón manna.

Sérfræðingar segja að fjöldi dauðsfalla hefði alls ekki þurft að vera svona mikill því hægt hefði verið að komast hjá stórum hluta þeirra með réttum viðbrögðum. CNN greinir frá.

Langflest smit og dauðsföll í Bandaríkjunum

Næstflestir hafa látist í Brasilíu þar sem dauðsföll eru um 250 þúsund, eða um helmingi færri en í Bandaríkjunum. Bandaríkin eru sömuleiðis með flest tilfelli smita en samkvæmt gögnum Johns Hopkins hafa 28 milljónir Bandaríkjamanna smitast af Covid-19.

Til samanburðar er það þrefalt á við fjölda smita í Brasilíu sem vermir þriðja sætið á lista yfir flest smit. Indland er með næstflest smit en þau eru helmingi færri eða um 14 milljónir.

Sérfræðingar segja að hægt hefði verið að koma í veg fyrir fjölda dauðsfalla og smita. Skortur á skýrum skilaboðum frá æðstu embættismönnum landsins og of hraðar og miklar tilslaknir ríkja og sveitarfélaga eru meðal þeirra atriða sem spila inn í slæma stöðu Bandaríkjanna.

Þá eru stórar samkomur yfir hátíðirnar og mótþrói margra gegn andlitsgrímum og öðrum sóttvarnaráðstöfunum einnig talin hafa átt sinn þátt.

mbl.is