Hyggjast skylda alla í bólusetningu

Líkt og annars staðar er miklar hömlur í á persónulegu …
Líkt og annars staðar er miklar hömlur í á persónulegu frelsi fólks í Galisíu um þessar mundir. AFP

Héraðsstjórn Galisíu á Spáni hefur ákveðið að skylda alla íbúa héraðsins til að láta bólusetja sig við Covid-19. Alls búa 2,7 milljónir manna í héraðinu og eins og sakir standa er nýgengi smita 216 á hverja 100 þúsund íbúa samanborið við 251 ef miðað er við landsmeðaltal. Heimild er til þess að veita himinháar sektir. 

Þeir sem hafna bólusetningu geta átt yfir höfði sér sekt upp að allt að 60 þúsund evrum eða því sem nemur um 9,3 milljónum króna. Í flestum tilvikum er þó búist við því að sektirnar verði frá 1000 - 3000 evrur eða því sem nemur frá 155 þúsund - 455 þúsund krónur.

Áður hafa spænsk yfirvöld gefið það út að þau hyggist ekki skylda þegna til þess að þiggja bólusetningu. Héruð lúta hins vegar héraðsstjórn sem hefur sjálfsákvörðunarrétt í vissum málaflokkum. Hefur Alberto Nuñez Feijóo forseti hérðasstjórnarinnar barist fyrir samþykki reglugerðar um að skylda fólk í bólusetningu frá því í nóvember. 

Reglugerðin hefur verið gagnrýnd meðal annars á þeim forsendum að óljóst er hvenær beri að beita harðari sektum. Þá telja margir að ákvörðunin sé ólýðræðisleg og til marks um forræðishyggju á hæsta stigi.Þá þykir reglugerðin skapa mikla lagalega óvissu sökum þeirra borgaralegu réttinda sem gagnrýnendur segja brotið á.

Andstaða við bólusetningar er óvenju mikil á Spáni. Allt að 40% landsmanna upplýstu í könnun á vegum spænsku hagstofunnar í byrjun mánaðar að þeir væru óvissir eða vildu ekki fá bólusetningu við Covid-19.

mbl.is