Magaæfingar á toppi rafmagnsstaurs

Rafmagnsstaur. Ekki þó í Kína heldur í Houston í Texas.
Rafmagnsstaur. Ekki þó í Kína heldur í Houston í Texas. AFP

Karlmaður í Kína klifraði upp á rafmagnsstaur og ákvað að gera magaæfingar á toppi hans. Taka þurfti rafmagnið af þúsundum heimila vegna þessa stórhættulega uppátækis.

Maðurinn var fluttur í burtu af lögreglunni eftir að hafa fengið ábendingu um málið á sunnudagskvöld í útjaðri borgarinnar Chengdu, í suðvesturhluta Kína.

Lögreglan birti myndskeið á samfélagsmiðlinum Weibo þar sem maðurinn sést í um tíu metra hæð gera þessar rafmögnuðu magaæfingar.

„Rafveitan á svæðinu þurfti taka rafmagnið af í neyðarskyni [...] þetta hafði áhrif á tugi þúsunda heimila,“ sagði dagblaðið People´s Daily.

Viðbragðsaðilar voru snöggir á vettvang, þar á meðal sjúkraflutningamenn, sagði dagblaðið The Paper frá Shanghæ.

Ekki er ljóst hvers vegna maðurinn valdi þennan stað til að gera magaæfingarnar en ríkisfjölmiðlar vöruðu við því að apað yrði eftir honum. „Hegðun mannsins er allt of hættuleg,“ sagði einn miðillinn.

Uppátækið vakti að vonum mikla athygli á kínverskum samfélagsmiðlum þar sem það hefur verið skoðað að minnsta kosti 1,7 milljón sinnum.

mbl.is