Sex ríki fá viðvörun vegna landamæra

Eftirlit á landamærum Þýskalands og Tékklands.
Eftirlit á landamærum Þýskalands og Tékklands. AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur formlega varað sex Evrópulönd við því, að takmarkanir á landamærum þeirra kunni að grafa undan frjálsu flæði innan sambandsins.

Framkvæmdastjórnin sendi í dag bréf þessa efnis til Belgíu, Danmerkur, Finnlands, Svíþjóðar, Ungverjalands og Þýskalands.

Þar er bent á hættuna á sundrungu og röskun á frjálsu flæði og birgðakeðjum. Lýsir framkvæmdastjórnin áhyggjum sínum af því að ráðstafanir ríkjanna gangi fram úr meðalhófi.

Svarfrestur er gefinn fram í næstu viku. Í framhaldi gæti sambandið farið í mál við ríkin vegna brota á lögum ESB.

Hafna ásökunum sambandsins

Stjórnvöld í Þýskalandi segja að strangar takmarkanir á landamærunum við Tékkland, Slóvakíu og Tíról í Austurríki gangi ekki í berhögg við lög sambandsins.

„Ég hafna þeirri ásökun að við höfum ekki farið að lögum ESB,“ sagði Evrópumálaráðherra Þýskalands, Michael Roth, við blaðamenn í Brussel í dag.

Takmarkanirnar væru í gildi af ótta við að mjög smitandi afbrigði veirunnar berist í landið og einnig vegna þess að Þýskaland sé í stöðu gegnumferðarlands, vegna legu sinnar mitt í Evrópusambandinu.

Vottorð aðeins tekin gild á völdum tungumálum

Í bréfinu, sem AFP-fréttaveitan hefur undir höndum, er meðal annars bent á að útbreiðsla afbrigðanna í Tékklandi og Slóvakíu væri engu verri en í sumum öðrum ríkjum sambandsins.

Þá er einnig gerð athugasemd við að yfirvöld í Þýskalandi fari fram á að skimunarvottorð séu gefin út á ensku, þýsku, frönsku eða ítölsku. Vottorð á tékknesku og slóvakísku skuli einnig tekin gild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert