Sorgmæddur yfir dauðsföllum af völdum Covid-19

Joe Biden Bandaríkjaforseti flytur ræðu sína.
Joe Biden Bandaríkjaforseti flytur ræðu sína. AFP

Joe Biden Bandaríkjaforseti segist vera afar sorgmæddur yfir því að yfir hálf milljón Bandaríkjamanna hefur látist af völdum Covid-19. Hann hvetur landsmenn til að sameinast gegn faraldrinum.

„Ég veit hvernig ykkur líður,“ sagði Biden í sjónvarpsræðu og átti þar við hversu oft hann hefur þurft að takast á við harmleik innan fjölskyldu sinnar. 

„Ég bið alla Bandaríkjamenn um að muna, muna eftir þeim sem eru farnir og þeim sem þeir kvöddu,“ sagði Biden. „Ég bið ykkur einnig um að bregðast við, vera áfram á varðbergi, virða fjarlægðartakmörk, nota grímur og bólusetja ykkur.“

Að ræðunni lokinni stóð hann ásamt eigin konu sinni Jill fyrir utan  Hvíta húsið, ásamt varaforsetanum Kamölu Harris og eiginmanni hennar Doug Emhoff þar sem þau héldu minningarstund fyrir framan 500 kerti.

Hljómsveit bandaríska sjóhersins spilaði lagið Amazing Grace.

Joe og Jill Biden standa hjá kertunum.
Joe og Jill Biden standa hjá kertunum. AFP

Biden hvatti Bandaríkjamenn til að minnast þeirra sem hafa látist. „Sem þjóð getum við ekki og megum ekki leyfa þessu að halda áfram,“ sagði hann.

„Við verðum að hætta þessum átökum og falsfréttum sem hafa sundrað fjölskyldum og samfélögum,“ sagði hann.

„Við verðum að berjast gegn þessu saman, sem ein manneskja, sem Bandaríkin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina