Te frá Eþíópíu reyndist khat

Ökumaður vörubifreiðarinnar kvaðst vera að flytja te frá Eþíópíu sem …
Ökumaður vörubifreiðarinnar kvaðst vera að flytja te frá Eþíópíu sem tollverðir fundu vissulega, en innar í bifreið hans leyndust 640 kg af jurtinni khat sem er mesta magn hennar sem norska tollgæslan hefur lagt hald á í einu. Jafnan eru khat-sendingar þó stórar, oft nokkur hundruð kíló, og fundu norskir tollverðir alls 13,5 tonn af jurtinni árið 2013. Ljósmynd/Norska tollgæslan

Norskir tollverðir við Svínasund, landamærastöðina milli Noregs og Svíþjóðar, rúma 100 kílómetra suður af Ósló, stöðvuðu vörubifreið á slóvakískum skráningarnúmerum 17. janúar og föluðust eftir farmskrá frá ökumanninum, rúmlega þrítugum Slóvaka.

Sá framvísaði umbeðnum pappírum og kvaðst vera að flytja te frá Eþíópíu til Noregs, 40 kassa sem hann hefði sjálfur borið um borð í færleik sinn. Eftir að hafa gegnumlýst farmrými bifreiðarinnar ákváðu tollverðir að kynna sér áferð telaufanna og opnuðu nokkra kassa. Aftast í bifreiðinni, næst hleðsludyrum hennar, reyndust kassar sem innihéldu ósvikið te.

Í kössum innar í bifreiðinni fundu tollverðirnir hins vegar 640 kílógrömm af afrísku jurtinni khat sem flokkuð er sem fíkniefni á Vesturlöndum en er lögleg í Eþíópíu, Sómalíu, Jemen, Kenýa og víðar. Blöðunum hafði þar verið pakkað í álpoka og þeir settir í pappakassa sömu gerðar og teið var flutt í og er þar komin stærsta khat-sending sem norska tollgæslan hefur lagt hald á í einu lagi. Oftast finnst töluvert magn jurtarinnar í einu og lagði tollgæslan hald á samtals 13,5 tonn af henni árið 2013.

Færri mál – stærri sendingar

Daglega aka um 1.500 vörubifreiðar gegnum tollstöðina við Svínasund og segir Wenche Fredriksen yfirtollvörður þar að stöðug greiningarvinna sé í gangi við að velja bifreiðar til skoðunar þar sem eðlilega geti tollverðirnir ekki stöðvað og rannsakað nema brot af þeirri umferð sem þar fer í gegn.

Nokkrir af tekössunum 40 sem ökumaðurinn sagðist sjálfur hafa borið …
Nokkrir af tekössunum 40 sem ökumaðurinn sagðist sjálfur hafa borið um borð. Kassarnir næst hleðsludyrunum innihéldu raunverulegt te frá Eþíópíu en í öðrum var khat, sem reyndar er gjarnan drukkið sem te auk þess sem laufin eru tuggin og hafa þá örvandi verkun auk þess að valda hægðatregðu og hækkuðum blóðþrýstingi. Ljósmynd/Norska tollgæslan

Hún kveður kórónufaraldurinn ekki stöðva smyglara, þvert á móti hafi tollgæslan fundið mikinn smyglvarning síðasta árið. „Málin eru færri, en sendingarnar eru stórar, fíkniefni, sígarettur og annar smyglvarningur. Margir eru mjög skapandi þegar kemur að leiðum til að flytja ólöglegan varning inn í landið,“ segir Fredriksen.

Khat er planta, catha edulis, sem vex í Afríku og á Arabíuskaganum. Lauf hennar hafa örvandi verkan og eru tuggin eða drukkin sem te, neyslan á sér nokkur þúsund ára sögu. Virka efnið er katín, eða norpseudoephedrine, sem er skylt amfetamíni en mun vægara, telst þó vanabindandi auk þess að valda hægðatregðu og hækkuðum blóðþrýstingi.

Til Noregs kemur khat mest í smyglförmum frá Bretlandi og Hollandi og er eftirsótt meðal sómalskra innflytjenda sem eru helsti neytendahópurinn samkvæmt rannsókn sem framkvæmd var að undirlagi norska heilbrigðisráðuneytisins árið 2006.

NRK

Dagsavisen

VG

Sunnmørsposten

mbl.is