Fyrstu skrefin í opnun Danmerkur

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á blaðamannafundi í dag.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, á blaðamannafundi í dag. AFP

Fyrstu skrefin í afléttingu strangs samkomubanns, sem gilt hefur í Danmörku frá því fyrir jól, verða tekin á mánudag. Mette Frederiksen forsætisráðherra og fylgdarsveinar hennar greindu frá þessu á blaðamannafundi síðdegis í dag.

Frá því í desember hefur nær allt verið lokað í Danmörku, sem á annað borð er hægt að loka. Skólum, menningarstofnunum, verslunum, að undanskildum matvöruverslunum og lyfjaverslunum, hárgreiðslustofum, og þar fram eftir götunum.

Á mánudag, 1. mars, verður verslunum undir 5.000 fermetrum að stærð leyft að opna á ný. Stærri verslanir mega einnig opna gegn því að taka við tímapöntunum frá viðskiptavinum. Menningarstofnanir utandyra mega sömuleiðis opna gegn því að viðstaddir framvísi neikvæðu kórónuveiruprófi sem ekki er eldra en þriggja sólarhringa.

Á vissum svæðum, þar sem lítið er um smit, verða stærri skref tekin. Á eyjunni Borgundarhólmi í Eystrasalti verða grunnskólar opnaðir að nýju en nemendum eldri en 12 ára gert að fara í sýnatöku tvisvar í viku. Þjónusta á borð við hárgreiðslustofur, nuddstofur og tattú opnar einnig með kröfu um neikvætt kórónuveirupróf. Eins verður slakað á takmörkunum á Norður- og Vestur-Jótlandi.

Það hefur verið tómlegt um að litast á Strikinu síðustu …
Það hefur verið tómlegt um að litast á Strikinu síðustu vikur – þó ekki alveg jafntómlegt og þessi mynd gefur til kynna. AFP

Vonast eftir frekari afléttingum eftir tvær vikur

Samkvæmt samkomulagi dönsku ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar á þinginu er einnig opnað á að slakað verði frekar á að tveimur vikum liðnum, þ.e. 15. mars. Þannig sé til skoðunar að opna framhaldsskóla og háskóla 15. mars.

Smitum í Danmörku hefur fækkað til muna frá því harðar aðgerðir tóku gildi í vikunni fyrir jól. Flest voru smitin 18. desember þegar 4.508 smit voru greind í landinu, en síðustu tvær vikur hafa að meðaltali um 450 smit greinst á dag. Jafngildir það um 30 smitum á Íslandi sé miðað við höfðatölu.

Dauðsföllum hefur að sama skapi fækkað, en síðustu vikuna hafa að meðaltali fimm látist á dag úr veirunni samanborið við um 30 á dag þegar mest lét um miðjan janúar. Bólusetning forgangshópa er í fullum gangi í landinu og stefna stjórnvöld að því að hafa bólusett alla þjóðina í lok júní, rétt eins og Íslendingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina