Gert að greiða fyrir heimilisstörf

Tímamótadómur féll í Peking í vikunni varðandi greiðslu fyrir heimilisstörf.
Tímamótadómur féll í Peking í vikunni varðandi greiðslu fyrir heimilisstörf. AFP

Skilnaðardómstóll í Peking hefur fyrirskipað manni að greiða fyrrverandi eiginkonu sinni bætur fyrir heimilisstörf sem hún vann á meðan þau voru gift. Um tímamótadóm í kínversku réttarfari er að ræða.

Konan fær greidd 50 þúsund júan, sem svarar til einnar milljónar króna, fyrir heimilisstörf sem hún vann þau fimm ár sem hjónabandið varði.

Málið hefur vakið hörð viðbrögð og miklar umræður á netinu um virði heimilisstarfa og segja sumir, samkvæmt frétt BBC, fjárhæðina of lága.

BBC vísar í dómsskjöl þar sem fram kemur að maðurinn, sem er nefndur Chen, hafi óskað eftir skilnaði í fyrra en hann og eiginkona hans, Wang, gengu í hjónaband árið 2015. 

Hún var ósátt við skilnaðinn en fór síðan fram á umbun fyrir árin sem þau voru gift þar sem Chen hafi ekki sinnt heimilisstörfum eða annast son þeirra.

Fangshan-héraðsdómstóllinn í Peking dæmdi henni í vil og fyrirskipaði manninum að greiða henni 2 þúsund júan á mánuði auk eingreiðslu upp á 50 þúsund júan fyrir þau heimilisstörf sem unnin voru á tímum hjónabandsins. 

mbl.is