Játar að hafa myrt þernu sína

Frá Singapúr fyrr í mánuðinum.
Frá Singapúr fyrr í mánuðinum. AFP

Singapúrsk kona hefur játað að hafa svelt, ráðist á og á endanum myrt þernu sína frá Mjanmar. Saksóknarar í borgríkinu segja málið eitt það versta sinnar tegundar sem þar hefur komið upp.

Um 250 þúsund erlendir ríkisborgarar, flestir frá fátækari ríkjum Asíu, starfa á heimilum fólks í borginni. Sögur af misþyrmingum í þeirra garð eru algengar.

En meðferðin sem Piang Ngaih Don var beitt á heimili sínu var af verri toga. Stappað var á henni, hún kyrkt, kæfð, barin með kústum og brennd með straujárni, meðal annars.

Húsmóðirin Gaiyathiri Murugayan, 40 ára að aldri, játaði sök í dag gagnvart 28 ákæruliðum, þar á meðal að hafa orðið 24 ára þernunni að bana. Refsing hennar verður ákveðin síðar en hún gæti þurft að sitja inni til lífstíðar.

Ráðin árið 2015

„Að ein manneskja skuli fara með aðra á svo illan og algjörlega ómannúðlegan hátt er tilefni réttlátrar reiði réttarins,“ sögðu saksóknarar við réttarhöldin. 

Piang Ngaih Don var ráðin af Gaiyathiri og eiginmanni hennar, sem starfar sem lögregluþjónn, árið 2015 til að aðstoða við að sjá um fjögurra ára dóttur þeirra og ársgamlan son.

Gaiyathiri réðst á þernuna næstum daglega, og oft nokkrum sinnum á dag, auk þess sem 61 árs gömul móðir hennar tók stundum þátt í ofbeldinu samkvæmt réttargögnum sem AFP-fréttaveitan hefur undir höndum.

Piang Ngaih Don lést á endanum í júlí árið 2016, eftir að Gaiyathiri réðst endurtekið á hana á nokkurra klukkustunda tímabili.

Vó aðeins 24 kíló

Hún hafði fengið lítið að borða á heimilinu og var neydd til að hafa baðherbergisdyrnar opnar í hvert sinn sem hún átti þar erindi. Þá var henni aðeins leyft að sofa í fimm klukkustundir á hverri nóttu. 

Alls tapaði hún um 38% af líkamsþyngd sinni þetta eina og hálfa ár sem hún starfaði hjá hjónunum. Hún vó aðeins 24 kílógrömm þegar hún lést.

Saksóknarar ákváðu að ákæra Gaiyathiri fyrir manndráp en ekki morð, sem getur haft í för með sér dauðarefsingu í Singapúr, eftir að hafa tekið mið af því að hún þjáðist sjálf af sjúkdómum, þar á meðal þunglyndi.

Eiginmaður hennar sætir einnig fjölda ákæra vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert