Mega deila upplýsingum um óbólusetta

Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Ísrael. Níu milljónir manna búa …
Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Ísrael. Níu milljónir manna búa í landinu en þar hefur um þriðjungur íbúa fengið fulla bólusetningu gegn Covid-19. AFP

Ísraelska þingið samþykkti í dag lög sem leyfa stjórnvöldum landsins að deila upplýsingum um þá sem ekki hafa fengið bólusetningu gegn Covid-19 með öðrum yfirvöldum. Þetta hefur vakið upp spurningar um friðhelgi einkalífs óbólusettra borgara. 

Lögin heimila svæðisstjórnum, forstjóra menntamálaráðuneytisins og sumum í velferðarráðuneytinu að kalla eftir nöfnum, heimilisföngum og símanúmerum þeirra sem hafa ekki látið bólusetja sig. 

Markmið laganna, sem eru tímabundin og gilda í þrjá mánuði eða þar til heimsfaraldrinum er formlega lokið, er að gera áðurnefndum aðilum kleift að hvetja fólk til bólusetningar „með því að hafa samband við það persónulega“, segir í yfirlýsingu frá ísraelska þinginu. 

Í umræðu á þingi um lögin sakaði leiðtogi Verkamannaflokksins, Merav Michaeli, forsætisráðherrann Benjamin Netanyaju um að „neita borgurum um rétt til friðhelgi læknisupplýsinga sinna“.

mbl.is