Vilja að SÞ rannsaki dráp sendiherrans

Ráðherrann ávarpaði þingið í Róm í dag.
Ráðherrann ávarpaði þingið í Róm í dag. AFP

Utanríkisráðherra Ítalíu hefur beðið Sameinuðu þjóðirnar að rannsaka hver eigi sök á því að sendiherra ríkisins í Austur-Kongó var myrtur úr launsátri á ferð um afríkuríkið á mánudag.

Sendiherrann Luca Attanasio, sem var 43 ára, lést eftir að bílalest WFP, Matvælaáætlunar SÞ, varð fyrir skothríð á hættulegum slóðum í austurhluta ríkisins nærri landamærunum við Rúanda.

Lífvörður hans frá Ítalíu og ökumaður frá Austur-Kongó létust einnig í árásinni.

Búast við skýrum svörum

„Við höfum formlega beðið Matvælaáætlunina og SÞ um að hefja rannsókn til að koma því á hreint hvað gerðist, hvaða ástæður voru fyrir þeim öryggisráðstöfunum sem gerðar voru og hver var ábyrgur fyrir þeim ákvörðunum,“ sagði utanríkisráðherrann Luigi Di Maio á þinginu í dag.

„Við búumst við skýrum og tæmandi svörum eins hratt og við verður komið,“ bætti hann við.

Innanríkisráðuneyti Austur-Kongó kenndi hópi uppreisnarmanna úr röðum Húta um árásina, en hópurinn nefnist Lýðræðisherinn fyrir frelsun Rúanda (FDLR).

Sá hópur hafnar hins vegar ásökuninni og vísar í staðinn á her Rúanda og her Austur-Kongó.

mbl.is