Þungt haldinn eftir aurskriðu

Svæðið þar sem aurskriðan féll á ríkisveg 80 í Nordland …
Svæðið þar sem aurskriðan féll á ríkisveg 80 í Nordland í morgun. Lögregla metur aðstæður svo að hætta sé á frekari skriðuföllum enda hefur hitastig farið ört hækkandi síðustu daga eftir margra vikna frosthörkur um nánast allan Noreg. Ljósmynd/330. þyrslusveitin

Ökumaður er alvarlega slasaður eftir að bifreið hans varð fyrir aurskriðu á veginum milli Bodø og Fauske í Nordland-fylki í Noregi á áttunda tímanum í morgun að skandinavískum tíma.

Umsvifamikil björgunaraðgerð var sett í gang er tilkynning barst um skriðuna og héldu lögregla og sjúkraflutningafólk á vettvang ásamt björgunarbáti og Sea King-björgunarþyrlu.

„Bifreið og ökumaður hennar urðu fyrir skriðunni. Ökumaðurinn fannst og var bjargað úr skriðunni með alvarlega áverka. Var hann fluttur á Nordland-sjúkrahúsið,“ segir í fréttatilkynningu lögreglu í morgun.

Veginum hefur verið lokað fyrir umferð á kaflanum milli Nordvika og Sagelva þar sem lögregla hefur metið hættu á frekari skriðuföllum fyrir hendi eftir að hafa skoðað loftmyndir af svæðinu.

Ör hækkun hitastigs síðustu daga eftir margra vikna kuldatímabil nánast um allan Noreg hefur valdið þó nokkrum aurskriðum og snjóflóðum, mörgum þeirra í Nordland-fylki og eru rauðar skriðu- og flóðviðvaranir í gildi víða, svo sem við Helgeland, Salten og Svartisen.

NRK

VG

Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert