„Ekki fyllast skelfingu“

Helsta lífæð Óslóar þegar allt er með felldu, gata Karls …
Helsta lífæð Óslóar þegar allt er með felldu, gata Karls III Jóhanns, konungs Noregs og Svíþjóðar frá 1818 til 1844. Myndin er tekin á ellefta tímanum fimmtudagsmorguninn 4. febrúar 2021 og væri þessi fjölfarna göngugata á þeim tíma dags jafnan þéttskipuð gangandi vegfarendum. Í fjarska gnæfir konungshöllin. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Það var 26. febrúar í fyrra, fyrir réttu ári, sem fréttir bárust frá Tromsø í Noregi af því sem þá var aðeins orðið spurning um daga, jafnvel klukkustundir. Fyrsta staðfesta tilfelli kórónuveirusmits, Covid-19, í Noregi. Fram að því höfðu Norðmenn, eins og allir jarðarbúar, fylgst með veirunni, sem fyrst var kennd við Wuhan í Kína, dreifa sér með ógnarhraða um heimsbyggðina.

„Mér líður ágætlega og ég hef það fínt,“ sagði konan, sem fyrst greindist með Covid-19 í Noregi, en hún var nýkomin frá Kína. „Nú hvet ég alla til að fylgja þeim ráðleggingum sem koma frá yfirvöldum og ekki fyllast skelfingu,“ sagði hún enn fremur, en hún tjáði sig gegnum Trond Brattland, sóttvarnalækni í Tromsø, og kom aldrei fram undir nafni.

69.436 hafa greinst smitaðir

Þegar þetta er skrifað hefur kórónuveiran dregið 620 manns til bana í Noregi, sá yngsti lést á 43 ára afmælisdaginn sinn. Framkvæmd veirupróf eru 3.767.906, jákvæð próf eru 69.436, innlagnir á sjúkrahús hafa alls verið 2.677, þar af 505 á gjörgæslu. Fyrri bólusetningu hafa 298.742 hlotið, þá síðari 104.343.

Á því ári sem liðið er hefur norsk þjóð gengið gegnum ýmislegt í faraldrinum; sigra, ósigra, vonarglætur, vonbrigði, óþolinmæði, leiða, samstöðu og síðast en ekki síst tugi blaðamannafunda flestra ráðherra ríkisstjórnarinnar.

Gibran orti í Spámanni sínum að þjáningin væri fæðingarhríð skilningsins og á því ári sem liðið er í dag hefur veiran blásið norskum skáldum í brjóst, úr ýmsum áttum, og þau kastað fram í bundnu máli kynnum sínum af vágestinum ósýnilega, tilfinningum sínum í hans garð og vonum um veirulausa framtíð.

Alt jeg ser er øyne hvor enn jeg går
bak munnbindet skjules smilet jeg ikke får.
Pandemien herier mens her jeg går
i min angst for at den jeg ikke får.

(-Anita Christina Tokerud, sem sér ekkert nema augu á meðan brosin eru hulin grímum. Faraldurinn herjar og hún getur aðeins vonað í ótta sínum að smitast ekki.)

Stærsta inngrip á friðartímum

Dagurinn sem fáum Norðmönnum líður úr minni er fimmtudagurinn 12. mars 2020. Erna Solberg forsætisráðherra ávarpaði þjóð sína og sagði stærsta inngripi í líf hennar á friðartímum standa fyrir dyrum. Ráðherra boðaði svo fyrstu lokun þjóðfélagsins, stór hluti norsks atvinnulífs lamaðist og voru mörg þúsund vinnustaðir lokaðir langt fram á vor, margir fram í júní. Bent Høie heilbrigðisráðherra tilkynnti að norsku heilbrigðisstarfsfólki væri bannað að yfirgefa landið til og með 30. apríl. Götur borga og bæja tæmdust.

Alt vi må gjøre for å redde liv
er å sitte inne og se på serier,
men alt vi Nordmenn vil er å dra på hytta
og forlenge våre påskeferier.
Hva faen, får jeg ikke lov til å dra på hytten
på Geilo, det kan du ikke mene,
klager alle nevemagnetene
som driter i sin påbudte karantene.

(-Uppistandarinn Rasmus Wold, sem varð skyndilega atvinnulaus og sló í gegn með ljóði sem hann þuldi með tilþrifum og dreifði upptökunni um lýðnetið og er þetta þar í: Við þurfum ekki að gera annað en að sitja heima og horfa á þætti til að bjarga mannslífum, en allt sem Norðmenn vilja er að fara upp í bústað og taka langt páskafrí. Fjandakornið má ég ekki fara í bústað í Geilo, þér er ekki alvara, segja allir kverúlantarnir sem gefa skít í reglur um sóttkví.)

Er þetta þá ekki búið? 

Sumarið 2020 rann upp bjart og fagurt, tíminn sem margir voru búnir að ákveða að hlyti bara að slá síðustu veiruna í gólfið, þetta óbermi þyldi varla sól. Áfengissala á veitingahúsum var leyfð á ný í Ósló, sem hafði bannað hana í marslok, flest sem lokaði 12. mars opnaði aftur, Norðmenn komust í klippingu og líkamsræktarstöðvar opnuðu 15. júní. Fólk fór í frí til útlanda og lífið virtist upp á kjöl klífa. En köld er sjávar drífa, eins og Þórir Jökull kvað á kilinum, og í sólskininu kom það eins og blaut tuska í 5,3 milljónir andlita að faraldurinn væri ekki á enda. Öðru nær.

La ikkje frykt
bli styrkedråpen.
Ei tente lykt
e vårt beste våpen.

(-Simon Didriksen frá Karmøy, eyju í Rogaland sem Snorri kallaði Körmt í konungasögum sínum. Didriksen skrifar framburðarstafsetningu eftir Rogaland-framburðinum og hvetur landa sína til að láta ekki óttann stjórna heldur kveikja ljós í myrkrinu.)

Hurtigruten og fleiri hópsmit

Síðsumar og haust urðu tímabil stórra hópsmita þar sem það umtalaðasta var tvímælalaust mál farþegaskipaútgerðarinnar Hurtigruten sem hugðist halda því leyndu fyrir alls um 400 farþegum í tveimur vikulöngum siglingum að 36 manns úr áhöfn MS Roald Amundsen hefðu greinst með kórónuveirusmit sem upp komu í þessum siglingum. Er málið komst í hámæli þurftu heilbrigðisyfirvöld og útgerðin að hringja í 400 farþega í snarhasti sem búsettir voru í 69 norskum sveitarfélögum og biðja þá að fara strax í sóttkví og gangast undir próf. Einn belgískur farþegi lést. Morgunblaðið ræddi við hjúkrunarkonu í sumar sem var farþegi í annarri siglingunni.

Í september steig fjárfestirinn og hótelkóngurinn Petter Stordalen, einn auðugasti maður Noregs og stjórnarmaður í Hurtigruten, fram með innilega afsökunarbeiðni. „Ég bið allan Noreg afsökunar,“ sagði Stordalen meðal annars. Minna heyrðist frá Daniel Skjeldam, forstjóra útgerðarinnar.

Skoler er stengt
og venner er vekk.
Den dumme Coronaen
har gitt oss en skrekk.

(-Synnøve, móðir Kevin, nemanda í 5. bekk í Rykkinn-grunnskólanum í Bærum, orti sjö erindi um faraldurinn þar sem þetta er á meðal. Skólar eru lokaðir og vinir á burt, þessi vitlausa veira veldur okkur ugg.)

Upp á von og óvon 

Níunda nóvember taldi borgarráð Óslóar ástandið í höfuðborginni orðið þannig að ekki væri stætt á öðru en að banna alla áfengissölu veitingahúsa og allar samkomur, íþróttaviðburði og líkamsrækt. Öll menningarstarfsemi lagðist af, aðeins bókasöfn fengu að halda dyrum sínum opnum, en það breyttist þó í janúar þegar breska og suðurafríska afbrigði veirunnar stakk sér niður í Noregi og settar voru strangar reglur sem nú gilda um allt land.

Bent Høie heilbrigðisráðherra fyrirskipaði lokun áfengisverslana í Ósló og níu öðrum sveitarfélögum í janúar en féll frá banninu sólarhring síðar fyrir bænastað bæjarstjóra Bærum og fleiri bæja þar sem áfengissala jókst um 73% á einum degi og mörg hundruð manns stóðu í löngum röðum við dyr opinna áfengisverslana.

Norðmenn bíða nú upp á von og óvon, enn einu sinni fjölgar smitum í höfuðborginni þótt þau séu mun færri en þegar verst lét í janúar. Eftir eitt ár af kórónusmiti í landinu geta Norðmenn enn fátt annað gert en beðið – í tvennum skilningi þeirrar sagnar.

Didriksen skáld frá Karmøy er þó vongóður og lætur skáldið sig dreyma á sinni Rogaland-mállýsku um ljósið við enda ganganna og betri tíma með blóm í haga:

ITTEKVART
kjeme kultur
i fart
ITTEKVART
ska ei hyttetur
bli holdbart
ITTEKVART
ska frisørsalong
bli drivbart
ITTEKVART
går med på slong
vennskape e spart.

(Ittekvart = etter hvert = innan skamms fer menningin á fullt, innan skamms kemst maður í bústaðinn aftur, innan skamms verður hægt að reka hárgreiðslustofur, innan skamms kemst maður út á lífið aftur, vinskapnum er borgið.)

mbl.is