Fundu líkamshluta konu sem hvarf í fyrra

AFP

Ástralska lögreglan segist hafa fundið líkamshluta konu sem er grunuð um fjársvik en fjórir mánuðir eru síðan hún hvarf frá heimili sínu í Sydney.

Hvarf kaupsýslukonunnar Melissa Caddick hefur vakið mikla athygli í Ástralíu en hún er grunuð um að hafa stolið milljónum dala frá viðskiptavinum sínum.

Ekkert hafði spurst til hennar þangað til í síðustu viku er fólk í útilegu fann skó með rotnuðum fæti í á strönd sem er í 400 km fjarlægð suður af Sydney. Lífsýni úr fætinum sýna að þetta er fótur Caddick segir í frétt BBC.

Dánarorsök og hvenær Caddick lést er nú til rannsóknar hjá dánardómstjóra að sögn lögreglunnar. „Það er enn ráðgáta hvernig og hvenær hún hafnaði í sjónum,“ segir Mick Willing, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Nýju Suður-Wales. 

Á fundi með blaðamönnum í dag sagði hann að ekki væri hægt að útiloka neitt og mögulega hafi hún tekið eigið líf. Lögregla leitar nú frekari vísbendinga í Tathra-þjóðgarðinum og víðar. 

Caddick,  sem var 49 ára fjármálaráðgjafi, hvarf snemma að morgni 12. nóvember, daginn eftir að alríkislögregla leitaði á heimili hennar í úthverfi Sydney. Tilkynnt var um hvarf hennar af syni hennar og eiginmanni sem héldu að hún hefði farið snemma út að hlaupa. Hún hafði ekki tekið neitt með sér þegar hún hvarf.
Skömmu eftir hvarf hennar birtu fjölmiðlar fréttir þar sem hún er sökuð um fjársvik. Fjármálaeftirlitið heldur því fram að Caddick hafi stolið að minnsta kosti 13 milljónum dala (áströlskum) úr fjárfestingarsjóðum rúmlega 60 viðskiptavina. Þeirra á meðal eru vinir hennar og fjölskylda. Fjárhæðin svarar til 1.280 milljóna króna. 
Samkvæmt fréttum ástralskra fjölmiðla lifði hún hátt og nefnd eru ferðalög erlendis, dýr fatnaður og skartgripir. 
Fyrr í mánuðinum greindi lögreglan frá því að hún teldi að Caddick væri enn á lífi en Willing sagði við fréttamenn í dag að eftir að hafa fundið líkamshluta hennar væri talið að hún væri látin. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert