Gerðu loftárásir í Sýrlandi

Mynd úr safni frá æfingum Bandaríkjahers í Noregi.
Mynd úr safni frá æfingum Bandaríkjahers í Noregi. AFP

Bandaríkjaher gerði loftárásir á búðir hersveita sem njóta stuðnings Írana í austurhluta Sýrlands í gær. Með þessu sé stjórn Joes Bidens Bandaríkjaforseta að senda skilaboð til stjórnvalda í Íran. Árásirnar voru gerðar í kjölfar eldflaugaárásar Írana á búðir bandarískra hermanna í Írak.

Þetta er fyrsta hernaðaraðgerð Bandaríkjahers gegn hersveitum tengdum Íran síðan Biden tók við embætti forseta fyrir fimm vikum. Varnarmálaráðuneytið segir að árásin hafi verið gerð á stöðvar þessara hópa á landamærum Sýrlands og Íraks. 

Talsmaður Bandaríkjahers, John Kirby, segir í yfirlýsingu að árásirnar hafi verið gerðar undir stjórn forseta Bandaríkjanna. Þær hafi verið svar við nýlegum árásum á Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra í Írak. Kirby minnist ekki á mannfall í árásunum í gær en samkvæmt sýrlensku mannréttindavaktinni létust 17 í loftárásunum þegar flugskeyti hæfðu þrjá flutningabíla sem voru að koma frá Írak skammt frá sýrlensku borginni Bukamal.

Allir þeir látnu eru úr hersveitunum Hashed al-Shaabi sem eru regnhlífarsamtök smærri vígahópa með tengsl við Íran. 

mbl.is

Bloggað um fréttina