Hjón dæmd í fangelsi fyrir sóttvarnabrot

Nigel Skea og eiginkona hans Agatha Maghesh Eyamalai mæta í …
Nigel Skea og eiginkona hans Agatha Maghesh Eyamalai mæta í dómsalinn fyrr í dag þar sem dómurinn var kveðinn upp. AFP

Breskur maður hefur verið dæmdur í tveggja vikna fangelsi fyrir að brjóta strangar sóttvarnareglur Singapúr með því að yfirgefa herbergi sitt á lúxushóteli og hitta unnustu sína þegar hann átti að vera í sóttkví.

Nigel Skea var einnig sektaður um 95 þúsund krónur fyrir brotið. Agatha Magesh Eyamalai, sem núna er eiginkona hans, var dæmd í vikulangt fangelsi fyrir að vera í vitorði með honum.

Jasvender Kaur, dómari í málinu, sagði þegar hún kvað upp dóminn að parið hafi verið „yfirkomið af tilfinningum vegna þess að það hafði ekki hist í langan tíma“.

Hún bætti samt við að kórónuveiran hefði óhjákvæmilega haft samskonar áhrif á sambönd og þess vegna þurfi rétturinn að senda „skýr skilaboð“ við brotum sem þessum sem ekki verða liðin.

AFP

Skea, 52 ára, lenti í Singapúr í september eftir að hafa flogið frá London til að hitta Eyamalai, sem er frá Singapúr. Honum var gert að fara í tveggja vikna sóttkví á hótelinu Ritz-Carlton Millenia.

Hann sendi Eyamalai, 39 ára, skilaboð og sagði henni hvar hann væri staddur og þá bókaði hún annað herbergi á sama hóteli, 13 hæðum ofar. Hann laumaðist síðan út úr herbergi sínu og notaði neyðarútganginn til að komast upp á 27. hæð þar sem Eyamalai, sem var ekki í sóttkví, opnaði neyðarútgöngudyrnar fyrir honum.

Parið eyddi nóttinni saman en öryggisvörður náði í hnakkadrambið á Skea morguninn eftir er hann reyndi að laumast aftur í herbergið sitt. Hann gat ekki komist aftur á sína hæð í gegnum neyðarútganginn og þurfti því að ganga niður á fjórðu hæð þar öryggisvörðurinn kom auga á hann.

Til að bæta gráu ofan á svart var maðurinn heldur ekki með grímu, sem var einnig brot á sóttvarnareglum. Parið, sem gekk í hjónaband í nóvember, játaði sekt sína.

mbl.is