Þurftu að öryggislenda í Moskvu

AFP

Flugmenn Boeing 777-þotu þurftu að öryggislenda vélinni í Moskvu í morgun eftir að villuboð komu upp í hreyfilstjórnkerfi flutningavélarinnar. Tæp vika er síðan annar hreyfillinn á þotu United Airlines af þessari gerð sprakk í tætlur skömmu eftir flugtak í Denver í Colorado-ríki í Bandaríkjunum.  Bann var sett á allt flug Boeing-777 með Pratt & Whitney-hreyfla en flugmönnum United-þotunnar tókst að snúa við og lenda aftur heilu og höldnu í Denver án þess að nokkurn sakaði um borð.

Í tilkynningu frá ríkisflugfélaginu Rossiya kemur fram að áhöfnin hafi orðið vör við að eitthvað væri ekki lagi eftir að villuboðin komu upp og ákveðið hafi verið að öryggislenda vélinni, sem var að fljúga frá Hong Kong til Madrid, í Moskvu. 

Fram kemur í tilkynningunni að engan hafi sakað og lendingin hafi gengið að óskum. Flugvélin mun síðar í dag halda för sinni áfram til Spánar. Ekki hefur komið fram hvort hreyflar þessarar vélar séu af sömu gerð og þeirrar sem lenti í vandræðum í Colorado á laugardag. 

Þetta er nýtt áfall fyrir stærstu flugvélasmiðju heims. 737 MAX-þotur Boeing voru kyrrsettar frá mars 2019 eftir að 346 manns fórust í tveimur slysum með stuttu millibili; með þotum Lion Air í Asíu 2019 og þotu Ethiopian Airlines árið eftir. Niðurstaða rannsakenda var að gallaður stjórnbúnaður, svonefndur MCAS-búnaður, hefði valdið slysunum. Varð Boeing að lagfæra það frá grunni og umskrifa þjálfunarbækur flugmanna að því er segir í frétt Morgunblaðsins í vikunni.

737 MAX sló í gegn hjá flugfélögum og seldist hraðar en nokkur önnur þota Boeing þar til flugbannið var sett á hana, en því var nýlega aflétt. Með kórónuveirufaraldrinum hrundi spurn eftir flugvélum og afpöntuðu félög hundruð MAX-véla.

mbl.is