Vilja stemma stigu við karlbreiðslu

Femínistarnir og aðgerðasinnarnir Elena Buscaino og Mina Bonakdar eru í herferð til að stemma stigu við svokallaðri karlbreiðslu, eða „manspreading“.

Karlbreiðsla á sér stað þegar karlmenn breiða úr sér þegar þeir setjast niður á almannafæri án þess að taka tillit til þeirra sem sitja nálægt þeim, sem oft og tíðum eru konur.

Í meðfylgjandi myndskeiði segjast aðgerðasinnarnir vilja með herferðinni valdefla fólk í jaðarstöðu sem lendir ítrekað í því, meðal annars í neðanjarðarlestum, að karlmenn breiða úr sér og eigna sér þannig stórt pláss. Um leið vilji þeir sýna fram á vald sitt.

Þær segja að karlbreiðsla sé ein tegund eitraðrar karlmennsku og hafa sett áletrun á buxur sem er ætlað að vekja athygli á málstaðnum. 

mbl.is