Breska ríkið stofnar banka

Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands.
Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands. AFP

Bresk stjórnvöld ætla að setja á stofn nýjan innviðafjárfestingabanka með 12 milljarða punda (2.100 milljarða króna) eigið fé og 10 milljarða punda (1.750 milljarða króna) ríkisábyrgð. Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands, greindi frá þessu í dag en markmiðið með bankanum er að koma efnahagslífinu af stað eftir kórónuveirufaraldurinn.

„Breskt efnahagslíf og almenningur á skilið heimsklassa innviði og það er einmitt það sem þessi nýi banki mun hjálpa okkur að færa þeim,“ segir Sunak.

Bankinn mun fjármagna einkafjárfestingar, einkum grænar fjárfestingar sem nýtast við að draga úr kolefnislosun. Þá mun hann veita sveitarstjórnum lága vexti til að styðja við „flókin innviðaverkefni“.

Sunak segir að bankinn muni til viðbótar við ríkisframlagið fjármagna sig með fé einkaaðila og eigi að geta stutt verkefni fyrir um 40 milljarða punda til að koma efnahagslífinu í gang og hjálpa til við að ná markmiðum um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 sem Bretar hafa lögfest.

Strangt samkomubann er í gildi í Bretlandi um þessar mundir, það þriðja frá því kórónuveirufaraldurinn hófst, og hefur það sett sinn toll á efnahaginn ofan á vandræði vegna útgöngunnar úr Evrópusambandinu.

Greiningaraðilar spá því að atvinnuleysi muni stóraukast í lok apríl þegar aðgerðir stjórnvalda, sem svipa til íslensku hlutabótaleiðarinnar, renna sitt skeið. Samkvæmt þeim greiðir ríkið hluta af launum fólks hjá fyrirtækjum sem hafa þurft að þola mikið tekjufall.

mbl.is