Mæla með bráðaleyfi J&J-bóluefnis

Hús Johnson & Johnson í Kaliforníu í Bandaríkjunum.
Hús Johnson & Johnson í Kaliforníu í Bandaríkjunum. AFP

Nefnd óháðra sérfræðinga samþykkti einróma að mæla með bráðaleyfi fyrir Johnson & Johnson-bóluefni við Covid-19 í Bandaríkjunum. Bóluefni frá Johnson & Johnson er nóg að gefa einu sinni.

Nefndin stóð saman af 22 sérfræðingum tilnefndum af Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna og í henni sátu meðal annars vísindamenn, fulltrúar neytenda og iðnaðar. Tilmæli slíkrar nefndar eru ekki bindandi en þeim er í langflestum tilfellum fylgt.

Bráðaleyfi verði því líklega gefið út á næstu dögum. Bóluefnið verður þannig þriðja bóluefnið við Covid-19 til að fá grænt ljós í Bandaríkjunum, sem verst hefur orðið úti í heimsfaraldrinum þegar litið er til fjölda smitaðra og látinna.

Stjórnendur Johnson & Johnson segjast vongóðir um að geta afhent þrjár til fjórar milljónir skammta í næstu viku í Bandaríkjunum.

mbl.is