Skipstjórinn lést um borð

Flutningaskipið Tertnes liggur nú við bryggju í höfninni í Mekjarvik …
Flutningaskipið Tertnes liggur nú við bryggju í höfninni í Mekjarvik í Randaberg, skipstjórinn er látinn og þeir sem eftir lifa af 18 manna filippseyskri áhöfn eru í einangrun og sóttkví um borð, en sjö þeirra greindust með kórónuveiru auk þess sem skipstjórinn greindist með veiruna við próf sem tekið var að honum látnum. Ljósmynd/Marine Traffic

Kanadíska flutningaskipið Tertnes liggur nú við bryggju í Mekjarvik í Randaberg, skammt frá Stavanger við vesturströnd Noregs, eftir að skipstjórinn lést um borð, en hann, auk sjö annarra af 18 manna áhöfn frá Filippseyjum, reyndist vera smitaður af kórónuveiru þegar norskir læknar fóru um borð. Greindist veiran í skipstjóranum „post mortem“, lík hans var skimað fyrir veirunni.

„Við getum ekki staðfest að skipstjórinn hafi látist af völdum Covid-19,“ segir Ole Bernt Lenning, yfirlæknir sveitarfélagsins, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Sendu út neyðarkall

Tertnes var á leið frá Gulen í Sogn í Noregi til Dover á Englandi þegar skipstjórinn veiktist á miðvikudaginn. Skipverjar sendu út neyðarkall og voru læknarnir fluttir með þyrlu á skipsfjöl. Var skipstjórinn þá látinn og gekkst öll áhöfnin undir veirupróf með fyrrgreindri niðurstöðu.

Áhafnaskipti voru á skipinu 12. febrúar og hefur enginn þeirra, sem nú eru um borð, stigið í land í Noregi og enginn fær að fara frá borði í Mekjarvik.

Höfnin í Mekjarvik í Randaberg sem reyndar er heimabær Bent …
Höfnin í Mekjarvik í Randaberg sem reyndar er heimabær Bent Høie heilbrigðisráðherra. Ljósmynd/Stavanger havn

Lenning yfirlæknir segir heilbrigðisyfirvöld í Stavanger hafa verið upplýst um málið auk Lýðheilsustofnunar Noregs og í Randaberg fylgist læknateymi sveitarfélagsins grannt með þróun mála en í dag verða sýnin úr áhöfninni rannsökuð með tilliti til þess hvort eitthvert stökkbreyttu afbrigðanna kunni að vera þar á ferð.

Fjöldi í sóttkví vegna atviksins

Læknarnir tveir sem fóru um borð í skipið á miðvikudaginn hófu sóttkví á fimmtudag auk þess sem tveir starfsmenn útfararþjónustu í Randaberg og fjölskyldur þeirra sæta einnig sóttkví og hafnsögumaðurinn sem fór um borð til að leiðbeina áhöfninni við innsiglinguna til Mekjarvik. Að lokum eru tveir menn, sem fóru um borð í Tertnes til að gera úttekt á búnaði um borð, einnig í sóttkví, alls um eða yfir tíu manns auk áhafnar skipsins sem gert er að halda kyrru fyrir um borð og telst hvort tveggja í sóttkví og einangrun, sumir smitaðir, aðrir ekki.

NRK

Randaberg24

Haugesunds Avis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert