Syrtir í álinn í Ósló

Aldrei hafa jafnmörg nýsmit kórónuveiru greinst í Ósló og síðasta …
Aldrei hafa jafnmörg nýsmit kórónuveiru greinst í Ósló og síðasta sólarhringinn, 245 talsins sem lætur nærri að vera helmingur allra nýsmita í Noregi sama tímabil, en þau voru 524. Borgarráð hefur boðað til blaðamannafundar á morgun þar sem nýjar ráðstafanir verða kynntar, aðstoðarforstöðumaður Heilbrigðisstofnunar Noregs segir stökkbreytt afbrigði veirunnar gera ástandið enn meira krefjandi. Ljósmynd/Wikipedia.org/John Christian Fjellestad

Borgarráð Óslóar boðar nýjar og enn umfangsmeiri ráðstafanir en áður gegn kórónuveirunni eftir að 245 ný smit greindust í höfuðstaðnum síðasta sólarhringinn, miðað við tölur sem gefnar voru út snemma í morgun og er það mesti fjöldi nýsmita í borginni á einum sólarhring síðan kórónuveirufaraldurinn hófst.

Sama tímabil voru heildarsmit í öllum Noregi 524 svo nærri lætur að helmingur þeirra sé í höfuðborginni og er það mat Lýðheilsustofnunar Noregs, FHI, að stökkbreytt afbrigði veirunnar séu á bak við flest nýju smitanna.

50 – 70 prósent af völdum B.1.1.7

„Þetta hefur gerst nokkru hraðar en við reiknuðum með,“ segir Camilla Stoltenberg, forstöðumaður FHI, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, en samkvæmt mati lýðheilsustofnunarinnar eru 50 – 70 prósent allra nýsmita í Ósló af völdum hins svonefnda breska afbrigðis kórónuveirunnar, B.1.1.7, sem bresk yfirvöld gáfu út fyrir jól að gæti verið allt að 70 prósent meira smitandi en kórónuveiran sem hóf faraldurinn.

Kveðst Stoltenberg hafa áhyggjur af þróun mála í Ósló og segir nauðsynlegt að skoða hvað nú megi taka til bragðs ofan á fyrri ráðstafanir, en í krafti þeirra er svo stór hluti daglegs lífs borgarbúa skertur að almennt er talið vafamál hvort hægt sé að ganga öllu lengra.

Raymond Johansen, formaður borgarráðs Óslóar, hefur boðað blaðamannafund klukkan 18 á morgun að norskum tíma þar sem kynntar verða nýjar ráðstafanir vegna fjölgunar smita, en ljóst er að ein þeirra verður að allir framhaldsskólar borgarinnar fara á svokallað rautt stig, um það var skólastjórnendum tilkynnt í dag. Rautt stig táknar meðal annars að nemendum verður skipt niður í hópa, eins metra fjarlægðarregla gildir í skólunum og engar hópsamkomur mega þar eiga sér stað.

Ýtrustu reglur minnst út apríl

Bjørn Guldvog, forstöðumaður Heilbrigðisstofnunar Noregs, segir í samtali við NTB-fréttastofuna að kapphlaup ríki milli bólusetningaraðgerða og nýju veiruafbrigðanna og hann telji nauðsynlegt að ýtrustu sóttvarnareglur gildi út aprílmánuð hið minnsta.

Norska dagblaðið VG ræddi í dag við Espen Nakstad, aðstoðarforstöðumann heilbrigðisstofnunar, sem kveður ástæðu til að gjalda varhug við þróun síðustu daga. „Þetta gerist í miðju vetrarfríi [í skólum] þegar reikna má að færri gangist undir próf svo full ástæða er til að líta þetta alvarlegum augum,“ segir Nakstad við VG.

Hann segir stökkbreyttar veirur gera ástandið enn meira krefjandi þar sem manneskja, sem gengur með slíka veiru, sé mun meira smitandi en áður var. „Þannig að þessar venjulegu ráðstafanir okkar duga kannski ekki lengur sem er veruleg áskorun. Nú verðum við að staldra við og hugleiða hve margt fólk við komumst í návígi við, hversu nálægt því við förum og hvort við gætum átt slík samskipti utandyra. Nú er nauðsynlegt að íhuga þessa hluti,“ segir Nakstad.

Snýst um nokkra mánuði í viðbót

Hann segir Norðmenn stadda í erfiðu millibilsástandi ósveigjanlegra reglna á meðan beðið er eftir meira bóluefni, en ráðgert er að stórar sendingar berist norskum heilbrigðisstofnunum seint í vor og í sumar.

„Klípan sem við erum stödd í núna snýst um hvort við náum að hafa stjórn á ástandinu nokkra mánuði í viðbót,“ segir Espen Nakstad að lokum um ískyggilega smittölfræði síðustu daga, einkum í Ósló þar sem eru heimili 700.000 manns.

NRK

NRKII (rætt við Stoltenberg og Johansen)

VG

Dagsavisen

Spá Aftenposten um nýjar reglur 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert