Í miðri skurðaðgerð á Zoom

Skjáskot af réttarhöldunum sem fram fóru á Zoom.
Skjáskot af réttarhöldunum sem fram fóru á Zoom. Yfirdómstóll Sacramento

Rannsókn er hafin á lækni í Sacramento í Kaliforníu-ríki eftir að hann tók þátt í réttarhöldum á Zoom í miðri skurðaðgerð. 

Scott Green, læknirinn sem um ræðir, var klæddur í sjúkrahúsfatnað, með andlitsgrímu og hanska í skurðstofu þegar hann kom fyrir dómara á Zoom á fimmtudag vegna umferðarlagabrots. Aðspurður sagðist Green ólmur vilja að réttarhöldin færu fram þá þegar og bætti við að með honum væri annar skurðlæknir. 

Dómarinn sagði þá að sér þætti ekki viðeigandi að halda áfram með réttarhöldin og ákvað að þeim skyldi frestað. 

Læknaráð Kaliforníu sagði í yfirlýsingu að atvikið verði rannsakað. 

Áður en réttarhöldin hófust sagði ritari dómarans við Green: „Halló, Green? Ert þú tilbúinn í réttarhöldin? Það lítur eiginlega út fyrir að þú sért inni á skurðstofu.“ Green svaraði þá að svo væri, en að það ætti ekki að vera fyrirstaða fyrir réttarhöldin. „Haltu bara áfram,“ sagði Green við ritarann. 

Á meðan beðið var eftir því að dómarinn í máli Green kæmi inn á fundinn virtist Green halda áfram að sinna sjúklingnum. Þegar dómarinn, Gary Link, var kominn á fundinn sagði hann við Green: „Ef mér skjátlast ekki er ég að sjá hinn ákærða í miðri aðgerð inni á skurðstofu og hann virðist vera að framkvæma aðgerð á sjúklingi. Er það rétt Green?“

Green svaraði aftur játandi og þvertók fyrir það að fresta þyrfti réttarhöldunum. 

Link sagði það þó óviðeigandi gagnvart sjúklingnum að halda áfram og ákvað að réttarhöldunum yrði frestað og að Green ætti að ganga úr skugga um það að ný dagsetning réttarhaldanna skærist ekki á við skyldur hans sem læknir.  

Frétt BBC. 

mbl.is