Mannskæðasti dagur mótmælanna frá valdaráninu

Vígbúnir lögreglumenn fylgjast með mótmælunum í Mjanmar.
Vígbúnir lögreglumenn fylgjast með mótmælunum í Mjanmar. AFP

Minnst tíu hafa látist í átökum milli mótmælenda og lögreglu í Mjanmar í dag. Um er að ræða mannskæðasta dag mótmælanna, sem hófust í kjölfar valdaráns mjanmarska hersins 1. febrúar. 

Mótmælendur hafa látist í borgunum Yangon, Dawei og Mandalay. Lögregla hefur beitt skotvopnum, táragasi og gúmmíkúlum gegn mótmælendum. Mótmælin hafa að stærstum hluta til verið friðsöm þangað til á laugardag þegar lögregla tók að beita auknu valdi. 

Myndbrotum af mótmælunum á sunnudag hefur verið deilt víða á samfélagsmiðlum og sýna þau mótmælendur flýja lögreglu sem eltir marga hverja uppi, uppsetningu heimatilbúinna vegtálma og blóðuga mótmælendur leita sér læknisaðstoðar.  

BBC hefur eftir heilbrigðisstarfsfólki í Mjanmar að hið minnsta tíu hafi látist það sem af er degi. Óstaðfestar upplýsingar á samfélagsmiðlum gefa þó til kynna að mannfallið hafi verið meira. Tugir eru taldir vera alvarlega slasaðir. 

mbl.is