Tæki hvaða bóluefni sem er í boði

Dr. Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, var bólusettur með efni frá …
Dr. Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, var bólusettur með efni frá Moderna. AFP

Dr. Anthony Fauci, sóttvarnalæknir Bandaríkjanna, hvatti í dag landsmenn sína til að láta bólusetja sig með hvaða bóluefni sem er, af þeim þremur „mjög áhrifaríku“ bóluefnum sem almenningi standa til boða í stað þess að afþakka tíma í bólusetningu í þeim tilgangi að fá aðgang að öðru bóluefni.

Ummælin lét Fauci falla í gær í tilefni þess að bandaríska matvæla- og heilbrigðiseftirlitið samþykkti bóluefni Johnson & Johnson og það varð þar með þriðja bóluefnið sem notað er til að bólusetja almenning í Bandaríkjunum. Hin bóluefnin sem samþykkt hafa verið í Bandaríkjunum koma frá Moderna og Pfizer.

Bóluefni Johnson & Johnson er það fyrsta sem samþykkt er í Bandaríkjunum sem krefst aðeins einnar sprautu, þ.e. einungis þarf einn skammt af því til að það myndi nægilega vörn gegn Covid-19. Talið er að það veiti um 72% vörn og um 86% vörn gegn alvarlegri einkennum sjúkdómsins. Bóluefnið var prófað á fleiri en 44 þúsund manns í Bandaríkjunum, Suður-Afríku og Suður-Ameríku.

Áhyggjur af virkni bóluefnisins

Bóluefni Pfizer og Moderna veita aftur á móti um 95% vörn og eru því einhverjir tortryggnir í garð bóluefnis Johnson & Johnson. Fauci segist skilja tortryggni og áhyggjur einhverra en tekur fram að til að bera saman bóluefni þurfi að gera það með rannsókn en slík samanburðarrannsókn hafi ekki farið fram.

„Þetta eru þrjú mjög áhrifarík bóluefni. Ég get upplýst að ég var bólusettur með einu þeirra, það var frá Moderna. Ef ég væri óbólusettur og ætti val um að fá bóluefni Johnson & Johnson núna eða bíða eftir öðru bóluefni þá myndi ég taka það bóluefni sem mér stæði til boða við fyrsta tækifæri,“ sagði Fauci í samtali við CNN.

mbl.is

Bloggað um fréttina