Útgöngubann í stærstu borg Nýja-Sjálands

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP

Útgöngubann tók gildi í morgun í Auckland, stærstu borg Nýja-Sjálands. Jacinda Ardern forsætisráðherra tilkynnti bannið í gær, en það gildir í sjö daga. Ákvörðunin er tekin eftir að 12 kórónuveirusmit, sem ekki hefur tekist að rekja, komu upp í borginni.

Aðeins eru tvær vikur síðan skyndiútgöngubann var sett á í borginni í þrjá daga eftir að þriggja manna fjölskylda greindist með breska afbrigði kórónuveirunnar.

Íbúum borgarinnar er nú aðeins heimilt að yfirgefa heimili sín til að fara til vinnu, sem þeir geta ekki sinnt heima, og til að kaupa í matinn. Allar aðrar verslanir og stofnanir samfélagsins eru lokaðar.

Annars staðar í landinu er svokallað annars stigs viðbúnaðarstig í gildi. Í því felst að samkomutakmarkanir miðast við 100 manns og grímuskylda er í almenningssamgöngum.

mbl.is

Bloggað um fréttina