Birgðir safnast upp af bóluefni

AFP

Illa gengur fyrir frönsk og þýsk yfirvöld að sannfæra þegna sína um að bóluefni AstraZeneca sé jafn áhrifaríkt og önnur bóluefni við kórónuveirunni. Birgðir af bóluefninu hafa hlaðist upp í báðum löndum.

Aðeins er búið að nota 273.000 AstraZeneca-skammta í Frakklandi en í lok febrúar voru 1,7 milljón skammtar af bóluefninu komnir til landsins. Virðist ekki breyta miklu að fólk í markhópum, það er heilbrigðisstarfsmenn 50 ára og eldri og fólk með alvarlega sjúkdóma, getur látið bólusetja sig hjá heimilislækni í stað þess að fara í sérstakar bólusetningamiðstöðvar.

Í Þýskalandi verða þær raddir sífellt háværari sem vilja breytingar á röðun á forgangslista þar sem 23. febrúar voru komnir 1,45 milljón skammtar af AstraZeneca til landsins en aðeins búið að nota 240 þúsund þeirra. Er nú þrýst á að kennarar og starfsmenn leikskóla verði bólusettir fljótlega, það er færðir úr forgangshópi 3 í hóp númer 2. 

Hvorugt landið hefur mælt með notkun bóluefnis AstraZeneca fyrir þá sem eru 65 ára og eldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert