Níu ára stúlka lést í særingarathöfn

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Níu ára stúlka frá Srí Lanka lést eftir að hún var barin ítrekað með reyrpriki við trúarathöfn sem foreldrar stúlkunnar töldu að myndi hrekja burt „illa anda“. 

Móðir stúlkunnar og önnur kona sem framkvæmdi athöfnina hafa verið handteknar og komu fyrir dómara á mánudag, að því er segir á vef BBC. 

Móðirin taldi að „djöfullinn“ hefði heltekið stúlkuna að sögn lögreglu á Srí Lanka. Stúlkan lést á sjúkrahúsi eftir að hafa misst meðvitund meðan á athöfninni stóð. 

Atvikið átti sér stað í bænum Delgoda, um 40 kílómetra vestur af höfuðborginni Colombo, þar sem konan sem framkvæmdi athöfnina er þekkt fyrir að bjóða upp á „særingarathafnir“.

Olíu var hellt á enni stúlkunnar áður en barsmíðarnar tóku við, þar sem móðir hennar taldi að hrekja þyrfti „djöfulinn“ úr líkama hennar. 

Nágrannar stúlkunnar reyndu að skerast í leikinn þegar þeir heyrðu óp hennar og sáu hvað átti sér stað en náðu þó ekki að koma henni til aðstoðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert