ESB hafi verið of lengi að samþykkja bóluefnin

Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis.
Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis. AFP

Danmörk og Austurríki munu „ekki reiða sig á Evrópusambandið í framtíðinni“ þegar kemur að bóluefnamálum að sögn Sebastian Kurz, kanslara Austurríkis. For­sæt­is­ráðherra Dan­merk­ur, Mette Frederik­sen, fer til Ísra­els á fimmtudag ásamt Kurz. Þar stend­ur til að leiðtog­arn­ir ræði við Benjam­in Net­anya­hu, for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, um sam­starf í bólu­efna­mál­um.

Ákvörðun danskra og austurrískra yfirvalda mun vera talsvert högg fyrir framtíð bóluefnasamtarfs Evrópusambandsins að því er fram kemur í frétt Telegraph. Bólusetningar í ríkjum Evrópusambandsins og öðrum samstarfsríkjum, meðal annars á Íslandi, hafa gengið mun hægar en raunin er í til dæmis Bretlandi og Bandaríkjunum. Bólusetningar hafa gengið langbest í Ísrael. 

Kurz sagði við dagblaðið Bild í dag að Evr­ópska lyfja­stofn­un­in (EMA) hafi verið of lengi að samþykkja bóluefni. 

„Við verðum þess vegna að búa okkur undir frekari afbrigði veirunnar og við ættum ekki að reiða okkur áfram á ESB þegar kemur að framleiðslu annarrar kynslóðar bóluefna,“ sagði Kurz. 

Trúin á samstarf ESB fer dvínandi

Frederiksen sagði í dag að Danmörk hafi þegar boðið í afgangsbirgðir af því bóluefni sem Ísrael hefur tryggt sér. Fram kemur í frétt Telegraph að ákvörðunin beri frekari merki þess að trú á bóluefnasamstarfi ESB fari dvínandi. 

Diplómati hjá Evrópusambandinu segir við Telegraph að samstarfinu hafi verið komið á af ótta við það að minni þjóðir myndu missa af bóluefna-lestinni. „Að því sögðu, ef minni ungar eru farnir að yfirgefa hreiðrið vakna spurningar um það af hverju við erum í samstarfi yfirhöfuð,“ sagði diplómatinn, sem er ónafngreindur í fréttinni. 

„Þú getur ekki haft nógu mörg bóluefni sem virka gegn öllum þessum afbrigðum. Við ættum að óska þeim góðs gengis – hugsa ég,“ sagði annar diplómati. 

Yfirvöld í Póllandi, Slóvakíu, Ungverjalandi og Tékklandi hafa öll gert ráðstafanir til að tryggja sér bóluefni utan Evrópusambandsins. Þá hefur Þýskaland tryggt sér 30 milljónir skammta af bóluefni Pfizer auk þess sem svæðisbundin yfirvöld í Frakklandi hafa reynt að fá umframbóluefni eftir öðrum leiðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert