Hætta útgáfu sex bóka Dr. Seuss

Bækur Dr. Seuss eru geysivinsælar víða um heim.
Bækur Dr. Seuss eru geysivinsælar víða um heim. AFP

Sex bækur eftir barnabókahöfundinn Dr. Seuss verða ekki lengur gefnar út vegna myndskreytinga sem þykja sýna kynþáttafordóma.

Bækurnar sem um ræðir eru: If I Ran the Zoo, Scrambled Eggs Super, McElligot's Pool, On Beyond Zebra!, And To Think That I Saw It On Mulberry Street og The Cat's Quizzer

„Þessar bækur mála mynd af fólki sem er meiðandi og röng,“ segir í yfirlýsingu frá félaginu sem heldur utan um arfleifð Dr. Seuss, Dr. Seuss Enterprises. 

Bækur Dr. Seuss, sem hét réttu nafni Thedor Seuss Geisel, hafa verið þýddar á fjölmörg tungumál og eru gefnar út í yfir 100 löndum, meðal annars í blindraletri. Þá hafa bækurnar verið gerðar að geysivinsælum kvikmyndum, meðal annars Trölli sem stal jólunum með Jim Carrey í aðalhlutverki og teiknimyndinni Lorax. 

Þrátt fyrir vinsældir bókanna hafa þær á síðustu árum verið gagnrýndar fyrir lýsingar á sögupersónum sem ekki eru hvítar á hörund. Í bókinni And To Think That I Saw It on Mulberry Street, er persóna sem á að vera kínversk m.a. teiknuð með tvær línur fyrir augu, haldandi á prjónum og skál af hrísgrjónum og klædd skóm í japönskum stíl. 

Í bókinni If I Ran the Zoo eru tveir afrískir karlmenn teiknaðir berir að ofan, skólausir og í pilsum úr stráum. 

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert